Samantekt frá #menntaspjall um samfélagsmiðla í námi og kennslu

Í gær, sunnudaginn 4. maí, fór fram #menntaspjall á Twitter um samfélagsmiðla í námi og kennslu. Gestastjórnandi að þessu sinni var Svava Pétursdóttir, nýdoktor á Menntavísindasviði HÍ. Samantekt af samræðunum má nálgast hér.

Eins og vaninn er á #menntaspjall rásinni voru umræður mjög líflegar og margt áhugavert sem kom fram. Skólafólk hefur aðgang að mjög fjölbreyttu úrvali samfélagsmiðla sem bjóða upp á ólíka möguleika í námi og kennslu. Reyndar svo ólíka að það er ef til vill ástæða til að skerpa á skilgreiningunni á íslenska hugtakinu “samfélagsmiðlar” til að endurspegla betur þá flóru.

Margt skólafólk leitar leiða til að nýta samfélagsmiðla í námi og kennslu og hefur sumt gengið vel en annað ekki. Meðal hindrana sem voru ræddar eru aldur nemenda og aðgengi að sumum samfélagsmiðlum (t.d. er 14 ára aldurstakmark á Facebook), persónuverndarsjónarmið, hæfni skólafólks og fleira. Þrátt fyrir það þá er augljóst að skólafólkið sem tók þátt í spjallinu sér spennandi möguleika í aukinni notkun samfélagsmiðla og nauðsyn þess að nýta þá í nútímaskólastarfi.