#menntaspjall um “Kennarar í 1:1 – eitt tæki á mann”

Á sunnudaginn, 18. maí, kl. 11-12, verður síðasta #menntaspjall fyrir sumarfrí. Umræðuefnið að þessu sinni er “Kennarar í 1:1 – eitt tæki á mann”. Fjallað verður um áhrif tæknivæðingar á kennarastarfið og sér í lagi áhrif þess að kennarar noti eigin tölvu- og samskiptabúnað heim og heiman til að sinna starfi sínu.

Gestastjórnandi er Lára Stefánsdóttir, skólastjóri Menntaskólans á Tröllaskaga. Lára hefur verið viðloðandi þróun upplýsingatækni til náms og kennslu allt frá níunda áratug síðustu aldar þegar hún m.a. kom að stofnun Ísmenntar, sem segja má að hafi markað upphaf upplýsingatæknivæðingar í skólum landsins. Lára átti einnig sæti í nefnd á vegum Menntamálaráðuneytisins sem hafði umsjón með fyrstu markvissu stefnumótun um upplýsingatækni í námi og kennslu, sem birtist í skýrslu með yfirskriftinni, Í krafti upplýsinga: Tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996-1999.

Eins og vanalega birtum við spurningar fyrirfram til þess að hvetja þátttakendur til að undirbúa svör svo þeir fái meira tíma í að lesa, skoða og bregðast við því sem aðrir segja.

Spurningar verða:

  1. Hvaða áhrif hefur það á starf kennarans að hafa stöðugan aðgang að vinnutölvu?
  2. Hvaða áhrif á samskipti kennara og nemenda hefði það ef allir kennarar hafa stöðugan aðgang að vinnutæki?
  3. Hvaða áhrif hefur það á nýtingu kennara á upplýsinga- og samskiptatækni í kennslu að hafa stöðugan aðgang að vinnutæki?
  4. Hvernig myndi breytingin, að hver kennari hafi eitt vinnutæki heima og í skólanum, hafa áhrif á vinnumagn kennara?