#menntaspjall um samstarf skóla og safna um nám utan skólastofunnar

Í fyrsta #menntaspjalli MenntaMiðju vetrarins, sem fer fram sunnudaginn, 7. september, kl. 11-12, verður rætt um fræðslustarf í söfnum og samstarf skólafólks og safnfræðslufulltrúa um að skapa skemmtileg og fróðleg tækifæri til náms utan skólastofunnar. Hér eru gagnlegar upplýsingar um #menntaspjall fyrir þátttakendur. 

Gestastjórnandi er Hlín Gylfadóttir, safnfræðslufulltrúi í Þjóðminjasafni Íslands og meistaranemi í safnafræði við HÍ. Samfara náminu var Hlín starfsnemi í Minnesota Children’s Museum í St. Paul, Minnesota, en í safninu hefur verið unnið mikið brautryðjendastarf í safnfræðslu frá stofnun þess fyrir rúmlega 20 árum.

Spurningar eru birtar fyrirfram og þátttakendur hvattir til að undirbúa sig svo góður tími gefst til að vera virkir í umræðum:

  1. S1: Hvað ættu nemendur að fá út úr heimsókn í safn?
  2. S2: Hvernig geta söfnin komið inn í skólastofurnar? Hvaða möguleika sjáið þið á starfi safnafólks inni í skólum?
  3. S3: Hvernig geta söfn og skólar nýtt internetið og samfélagsmiðla til að auka námsmöguleika nemenda?
  4. S4: Hvernig gæti samstarf kennara og safnafræðslufulltrúa verið til að auka fræðslugildi safnastarfs?
  5. S5: Hvernig nýtum við best eiginleika safna sem óhefðbundinn námsvettvang?
  6. S6: Hvaða farveg getum við skapað fyrir þá sem vilja aukið samstarf á milli safna og skóla?