Hvað eru samfélagsmiðlar og til hvers notum við þá?

social_mediaVið á MenntaMiðju og fulltrúar torganna, sem við erum í samstarfi með, leggjum mikla áherslu á að starfssamfélög skólafólks nýti sér samfélagsmiðla til að deila þekkingu og reynslu. Sumum finnst þó óljóst hvað felst í hugtakinu “samfélagsmiðlar”. Þetta kemur ekki á óvart, enda er hugtakið gjarnan notað til að vísa til ótal ólíkra rafrænna miðla, sem sumir hverjir eiga lítið sameiginlegt. T.d. eru Facebook og WordPress vefir báðir lýstir sem samfélagsmiðlar þrátt fyrir að vera töluvert ólíkir bæði hvað varðar útlit og virkni. Það er samt svo að við sjáum nægilega margt sameiginlegt með þessum miðlum að við leyfum okkur að setja þá saman undir einn hatt. Það er gagnlegt að skoða umræðuna um samfélagsmiðla og skýra betur hvað er átt við og til hvers þeir eru notaðir til að átta okkur betur á hvernig þeir geta stuðlað að námi og starfsþróun. Í þessari grein ætla ég að reifa í stuttu máli skýringar á hugtakinu “samfélagsmiðla” og greiningar á mismunandi tegundum og hlutverkum þeirra. Ég styðst við tvær greinar sérstaklega: boyd & Ellison (2007) og Kaplan & Haenlein (2010).

Áður en lengra er haldið er réttast að staldra aðeins við og velta fyrir okkur hvað við eigum við með “samfélagsmiðla” almennt. Það felst í orðunum sem mynda hugtakið að samfélagsmiðlar eru tól til upplýsingadreifinga, en jafnframt er leitast við að virkja þá sem nota tólin til að skapa, eða auka, samfélagskennd notenda. Útvarp og sjónvarp eru til dæmis ekki samfélagsmiðlar þar sem þeir sjálfir stuðla ekki beint að auknum félagslegum tengslum milli notenda. Ýmsa hefðbundna miðla mætti ef til vill telja til samfélagsmiðla miðað við þessa einföldu skilgreiningu. Til dæmis eru fræðileg tímarit til þess gerð að skapa vettvang fyrir samskipti milli fræðimanna og auka þannig samfélagskennd. Fréttabréf félaga og samtaka gegna álíka hlutverki og veita oft meðlimum samfélaganna sem þeim er ætlað að styðja tækifæri til að miðla upplýsingum til annarra. Samt sem áður eru hefðbundnir miðlar af þessu tagi ekki það sem við er átt þegar við tölum um samfélagsmiðla. Hugtakið er nýyrði sem er ætlað að undirstrika þær breytingar sem hafa orðið á samskiptum og samfélagsmyndun vegna örar þróunnar upplýsingatækni á síðustu tveimur áratugum eða svo. Hugtakið “samfélagsmiðlar” vísar því einkum til rafrænna miðla sem styðja margmiðlunarefni jafnt sem texta og sem gera notendum kleift að vinna saman að uppbyggingu miðilsins með því að deila upplýsingum, reynslu og þekkingu. Að öðru leyti má segja að samfélagsmiðlar eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir.

Mismunandi samfélagsmiðlar eiga margt sameiginlegt, en það er líka margt sem greinir á milli þeirra. boyd og Ellison (2007) (NB. danah boyd skrifar nafnið sitt með litlum upphafsstöfum) flokka samfélagsmiðla í þrjár gerðir út frá því hvernig þeir stuðla að myndun félagslegra tenginga milli notenda:

  1. Samfélagsmyndandi miðlar (e. social networking sites) – Samfélagsmyndandi miðlar eru þeir sem notaðir eru til að hjálpa fólki að tengjast öðrum sem viðkomandi á eitthvað sameiginlegt með, hvort sem aðilarnir þekkjast utan samfélagsmiðilsins eða ekki. Dæmi um þess háttar samfélagsmiðil er Twitter. Á Twitter eru tengingar stofnaðar milli aðila þegar einn “fylgir” (e. follow) öðrum. Aðgerðin krefst þess ekki að sá sem á að fylgja samþykki aðgerðina og eru tengslin því að mestu ópersónuleg. Hins vegar skapast tenging á milli viðkomandi aðila sem gerir skilaboð beggja aðila aðgengilegri og tengingin verður sýnileg öðrum notendum. Þannig myndast smám saman samfélag tengdra notenda þar sem fylgst er með skilaboðum meðlima og jafnvel efnt til beinna samskipta, sem geta verið opinber eða lokuð. Aðrir notendur nýta upplýsingar sem þeir hafa aðgang að um tengingar milli aðila til að velja heppilegar og gagnlegar tengingar fyrir sig sjálfa og taka þannig þátt í áframhaldandi samfélagsmyndun. Önnur dæmi um samfélagsmyndandi miðla eru LinkedIn, Academia.edu, Couchsurfing, og ótal fleiri.
  2. Samfélagslegir stuðningsmiðlar (e. social network sites) – Samfélagslegir stuðningsmiðlar eru þeir miðlar sem eru notaðir til þess að skapa rafrænan vettvang fyrir samfélög sem eru þegar til. Meðlimir samfélagsins þekkjast yfirleitt innbyrðis og eru gjarnan í samskiptum utan miðilsins líka. Hlutverk miðilsins er því að brúa bil á milli samfunda í raunheimum og að varðveita og miðla sameiginlegar afurðir sem verða til innan samfélagsins. Dæmi um þess háttar samfélagsmiðil er Facebook. Á Facebook eru tengdir aðilar ekki ópersónulegir “fylgjendur”, eins og á Twitter, heldur eru þeir “vinir” sem “líka” við aðgerðir og skilaboð annarra notenda. Ennfremur þarf samþykki annars aðilans þegar stofnað er til tengsla milli aðila og eru tengslin því töluvert persónlegri en á samfélagsmyndandi miðlum. Önnur dæmi um þess háttar samfélagsmiðla eru lokuð kerfi eins og Ning og námskerfi á borð við Moodle. Þar er markmiðið fyrst og fremst að styðja samfélag sem á uppruna allt annars staðar en í netheimum eða á viðkomandi samfélagsmiðli.
  3. Samfélagsleg tækni (e. social technology) – Samfélagsleg tækni er sú tækni sem er notuð bæði til samfélagsmyndunar og til að styðja við samfélag, en flokkast ekki endilega sem samfélagsmiðill út af fyrir sig. Samfélagsleg tækni er oft notuð í tengslum við aðra miðla eða aðrar samfélagslegar athafnir, bæði í netheimum og raunheimum, til að auka samfélagskennd eða að bæta eiginleikum við aðra samfélagsmiðla. Til dæmis eru helstu íslensku fréttamiðlar á vefnum ekki samfélagsmiðlar sem slíkir. Enginn þeirra, hvort sem litið er til mbl.is, visir.is, dv.is eða ruv.is, býður upp á möguleika til samfélagsmyndunar eða stuðnings á sínum vefum. Þess í stað nota sumir þeirra tækni annarsstaðar frá til þess að skapa samfélagskennd. Mbl.is notar blogg kerfið sitt, blog.is, sem gerir notendum kleift að tengja bloggfærslur við tilteknar fréttir þannig að frekari umræður geta farið fram á bloggum viðkomandi. Visir.is og dv.is nota umræðukerfi Facebook til að skapa samfélagskennd. Fleiri dæmi um samfélagslega tækni sem er notuð á svipaðan hátt, þ.e.a.s. til að auka samfélagskennd á ótengdum miðlum, eru vídíómiðlunin YouTube, myndavefurinn Flickr, glæruvefurinn Slideshare, og margt fleira. Einnig væri hægt að flokka tækni á borð við Skype, Google Hangouts, og aðra myndfundatækni sem samfélagslega tækni að því leyti að þau eru notuð til að styðja samfélög.

Kaplan & Haenlein (2010) skoða fleiri þætti en félagslegar tengingar í greiningu þeirra á samfélagsmiðlum. Meðal helstu þátta sem þeir taka mið af eru:

  • Samskiptaform – Eru samskipti bein eða óbein? Er talað beint til þeirra sem við erum í samskiptum við eða er samskiptum miðlað með einhverjum hætti. Það er t.d. munur á að ræða við einhvern í síma eða í myndfundabúnaði. Eins er munur á að vera í tölvupóstsamskiptum eða að “tjatta” á Facebook.
  • Upplýsingaauðgi (e. media richness) – Hversu fjölbreyttar upplýsingar er hægt að miðla? Styður miðillinn aðeins texta eða er hægt að láta myndir og hljóð fylgja?
  • Félagsleg nærvera (e. social presence) – Hversu mikil nálægð skapast milli meðlima samfélagsins? Þegar mikil félagsleg nærvera skapast verður samband milli meðlima náið og persónulegt og félagsleg áhrif innan samfélagsins aukast. Lítil félagsleg nærvera gerir meðlimum kleift að hálda ákveðinni fjarlægð og eykur persónulegt sjálfstæði innan samfélagsins.
  • Sjálfsafhjúpun (e. self presentation/disclosure) – Hversu mikið gefa meðlimir samfélagsins upp um sjálfa sig? Á einum pólnum eru miðlar þar sem þess er krafist að notendur gefi upp tilteknar upplýsingar um sjálfa sig sem þarf jafnvel að staðfesta með einhverjum hætti. Á hinum pólnum eru miðlar þar sem notendur geta skáldað persónu sem á sér enga stoð í raunveruleikanum, eins og gert er í mörgum tölvuleikjum. Það hefur töluverð áhrif á samskipti hvort við teljum okkur vera að ræða við raunverulega og þekkta persónu, sem við gætum hitt á út á götu, eða persónu sem er aðeins til í sýndarheimi samfélagsins.

Kaplan & Haenlein setja þessi viðmið á tvo ása og búa til fylkistöflu sem lýsir því hvernig samvirkni þessara þátta móta ólíka samfélagsmiðla:

Félagsleg nærvera/upplýsingaauðgi
Lágt Meðal Hátt
Sjálfskynning/
Afhjúpun
Hátt Persónulegir vefir
Dæmi: Blogg
Samfélagsmyndandi
og -styðjandi miðlar
Dæmi: Facebook
Sýndarveruleikar
Dæmi: Second Life
Lágt Samstarfsverkefni
Dæmi: Wikipedia
Miðlabankar
Dæmi: YouTube
Fjöldaspunaleikir
(MMORPG)
Dæmi: Eve Online

Heimild: Kaplan & Haenlein, 2010.

Kaplan & Haenlein sýna e.t.v. betur margbreytileika samfélagsmiðla en einföld greining boyd & Ellison. Gagnlegast er þó að hafa bæði til viðmiðunar þar sem þau bæta hvort annað upp og gefa saman betri heildarmynd af þeirri flóru sem er til staðar og möguleikana sem þeir bjóða upp á. Eins er mikilvægt að hafa í huga að kostir samfélagsmiðla mótast ekki bara af tæknilegum eiginleikum þeirra heldur hafa notendur líka mótandi áhrif. Á mörgum samfélagsmiðlum getur notandi nýtt tiltekinn samfélagsmiðil á annan hátt en vanalegt er og breytt þannig eiginleikum hans. Facebook er til dæmis miðill sem býður upp á þó nokkra félagslega nærveru og eru tengingar milli notenda frekar persónuleg. Hins vegar er fjöldi Facebook notenda sem nota miðilinn eins og blogg þar sem félagsleg nærvera er lítil og tengsl milli notenda ópersónuleg. Annar algengur samfélagsmiðill er Twitter, sem býður upp á álíka félagslega nærveru og Facebook en er frekar ópersónulegur. Þessu er hægt að breyta með skipulögðu spjalli, eins og #menntaspjall, þar sem þátttakendur eru oft í beinum samskiptum hver við annan og ávarpa jafnvel aðra með nafni (eða notandanafni).

Þessi dæmi sýna að  þó við getum flokkað samfélagsmiðla eftir ýmsum formúlum þá er aðkoma hvers notanda það stór þáttur í mótun miðilsins að hann getur, með notkun sinni, breytt miðlinum úr einni gerð í aðra. Það sem þetta þýðir fyrir okkur sem leitast við að nota samfélagsmiðla til að ná tilteknum markmiðum er að við þurfum að vera meðvituð um þá samfélagsmiðla sem eru til, hvernig þeir virka og hvað er hægt að gera við þá. Um leið verðum við líka að vera skapandi í okkar nálgun við samfélagsmiðla og velta fyrir okkur hvað við getum látið þá gera fyrir okkur og hvernig við getum mótað þá.

Aukinn skilningur á kostum og eiginleikum samfélagsmiðla nýtist okkur einnig til að velja skynsamlega þá samfélagsmiðla sem best henta í tiltekin verkefni hverju sinni. Við getum notað eiginleikana sem bæði boyd & Ellison og Kaplan & Haenlein skilgreina til að greina helstu þarfir. T.d. má spyrja, krefst verkefnið sem um er að ræða mikillar félagslegrar nærveru eða ekki? Hversu mikilvægt er að notendur upplýsi aðra um sig sjálfa? Hjálpar margmiðlunarefni okkur að ná settum markmiðum? Segjum sem svo að við viljum mynda samfélag þar sem einstaklingar eru hvattir til að skapa sér sérstöðu og deila sérþekkingu með öðrum til að ná sameiginlegum markmiðum. Þá er mikilvægt að samfélagsmiðlar sem við veljum til verksins ýti undir mikla félagslega nærveru, að tengsl eru persónuleg, að notendur fái að flagga sínum hæfileikum, o.s.frv. Þá væri notkun blogga líklega ekki ákjósanleg þar sem blogg styðja fremur litla félagslega nærveru og þyrfti því að bæta upp fyrir það með öðrum leiðum. Facebook væri  skárri kostur þar sem félagsleg nærvera er frekar há, tengsl eru mjög persónuleg og sjálfskynning/afhjúpun er mikil.

Samfélagsmiðlar hafa þróast mjög ört á skömmum tíma og má gera ráð fyrir að svo verði áfram. Með því að gera okkur grein fyrir grunneiginleikum samfélagsmiðla og hvernig þeir styðja mannleg samskipti getum við verið betur undir það búin að nýta okkur það sem býðst hverju sinni í þágu náms, símenntunar og starfsþróunar.