Nýtt samkomulag um Menntamiðju undirritað

Frá vinstri: Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hellen Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri mennta- og vísindamála hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað samstarfssamning um MenntaMiðju, samráðsvettvang um skólastarf. Samningurinn nær til þriggja ára og kveður á um aðkomu að rekstri MenntaMiðju.

MenntaMiðja er nýtt og áhrifaríkt form starfsþróunar fyrir kennara og stjórnendur á öllum skólastigum sem byggir meðal annars á jafningjafræðslu. Mismunandi torg eða gáttir (um ákveðin málefni) eru grunneiningar MenntaMiðjunnar og þar fer fram hið raunverulega starf. Viðfangsefni torganna varða t.d. formlegt og óformlegt nám, kennsluaðferðir, námsefni, símenntun, starfsþróun, upplýsingamiðlun og fleira.
Uppspretta nýrra hugmynda og þekkingar

MenntaMiðja hefur verið starfrækt síðan 2012 við góðan orðstír. Í hverju verkefni er virkjaður hópur fólks sem hefur þekkingu, áhuga og erindi í margbreytilega umræðu um þróun menntunar og skólamála. Tekist hefur að skapa samráðsvettvang á netinu þar sem fólk kemur saman úr ólíkum áttum, svo úr verður suðupottur nýrra hugmynda og þekkingar.

Auk þess hefur verið opinn vettvangur á Twitter um hríð undir heitinu #menntaspjall sem tengist MenntaMiðju. Þar fara fram fjörlegar umræður um skóla- og menntamál á Íslandi undir stjórn sérfræðinga sem stýra umræðum um afmarkað efni.

MenntaMiðja verður hluti af Menntavísindastofnun og er fyrirhugað að samstarfsaðilar fundi að lágmarki einu sinni á ári. Áhersla er lögð á tengingu milli stofnana, skóla og fræðasamfélagsins með gagnkvæman ávinning allra aðila að leiðarljósi.
#Eymennt – Menntabúðir á Norðurlandi

eymenntÍ dag, 26. janúar, 2016, verða menntabúðir haldnar í Brekkuskóla á Akureyri. Þetta eru fimmtu menntabúðir af átta sem haldnar eru á þessu skólaári. Að verkefninu koma Hrafnagilsskóli, Brekkuskóli á Akureyri, Þelamerkurskóli og Dalvíkurskóli og er það styrkt af Endurmenntunarsjóði grunnskóla.

Menntabúðir eru jafningjafræðsla þar sem komið er saman og þeir þátttakendur sem það vilja geta deilt eigin þekkingu og reynslu í óformlegu umhverfi. Menntamiðja hefur í samstarfi við UT-torg og RANNUM staðið fyrir fjölda menntabúða undanfarin ár. Reynslan hefur sýnt að menntabúðir eru frábær leið til að stuðla að auknu upplýsingaflæði meðal kennara, tengslamyndun og starfsþróun.

Tiltölulega auðvelt er að skipuleggja menntabúðir. Það eina sem þarf er staður, stund og fólk sem er tilbúið að miðla og læra. Þátttakendurnir sjálfir sjá um afganginn.

Hægt er að fylgjast með samræðum þátttakenda á Twitter undir umræðumerkinu #eymennt
Menntamiðja þátttakandi í Erasmus+ verkefni um MOOC og nýsköpun

Í janúar 2016 hófst nýtt Erasmus+ verkefni sem Menntamiðja tekur þátt í. Tilgangur verkefnisins er að rannsaka og hanna s.k. MOOC námskeið, sem eru opin netnámskeið með miklum fjölda þátttakenda. Auk Menntamiðju eru samstarfsaðilar Civitas Collegium í Póllandi, Háskólinn í Northampton í Bretlandi og ę-Samtök um skapandi frumkvæði í Póllandi. Námskeiðin sem verða hönnuð eru ætluð að kenna grunnatriði í nýsköpunarfræðum. Framlag Menntamiðju er fyrst og fremst sérfræðiþekking á kennslu á netinu og með samfélagsmiðlum og er byggt á reynslu af Samspil 2015 verkefninu.
Vorráðstefna miðstöðvar skólaþróunar HA 2016

Vorráðstefna um menntavísindi á vegum miðstöðvar skólaþróunar HA verður haldin í Háskólanum á Akureyri laugardaginn 16. apríl 2016 undir yfirskriftinni Snjallari saman. Ráðstefnan er að þessu sinni tileinkuð notkun upplýsingatækni og miðlunar í skólastarfi. Markmiðið er varpa ljósi á gildi stafrænnar tækni í skólastarfi og hvernig hægt er að nota tækninna á fjölbreyttan hátt til stuðnings námi og kennslu.

Efni ráðstefnunnar er að venju sniðið að leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Aðalfyrirlesarar:

  • Kjartan Ólafsson lektor og formaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri
  • Helena Sigurðardóttir og Margrét Þóra Einarsdóttir grunnskólakennarar í Brekkuskóla á Akureyri
  • Tryggvi Thayer verkefnisstjóri Menntamiðju við Menntavísindasvið Háskóla Ísland

Auk aðalfyrirlestra verða málstofur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að þróun tölvu-, upplýsingatækni og miðlun í skólastarfi einnig verður boðið upp á smiðjur þar sem ráðstefnugestum gefst tækifæri til að sjá og kynnast hvernig hægt er að nota og jafnvel prófa verkfæri sem tengjast tölvu- og upplýsingatækni.

Frestur til að senda inn lýsingu á erindi eða smiðju að hámarki 200 orð er til 15. janúar 2016.

Hér má senda inn ágrip (ath. að tengillinn fer á vef miðstöðvar skólaþróunar)

Nánari upplýsingar veita Hólmfríður Árnadóttir, 460 8571, netfang: hoa@unak.is og Sólveig Zophoníasdóttir, 460 8564, netfang: sz@unak.is.