Samfélagsleg nýsköpun í skólastarfi

Í vetur sóttu fimm nemar af Menntavísindasviði Háskóla Íslands alþjóðlegt námskeið um samfélagslega nýsköpun sem haldið var í Varsjá í Póllandi. Námskeiðið er hluti af Erasmus+ verkefni sem Menntamiðja tekur þátt í. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að aukinni samtengingu háskóla og samfélags með innleiðingu samfélagslegrar nýsköpunar í fræðslu og starfsemi.

Á námskeiðinu fengu nemendur að kynnast fræðilegum og praktískum hliðum á samfélaglegri nýsköpun og sérstaklega hvernig megi tengja hana við skólastarf. Kennarar á námskeiðinu voru sérfræðingar á ýmsum sviðum sem tengjast nýsköpun og menntun frá þeim aðilum sem taka þátt í Erasmus+ verkefninu sem eru: Collegium Civitas í Varsjá, University of Northampton í Englandi, Ashoka Poland og Menntamiðja Menntavísindasviðs HÍ. Þátttakendur voru nemendur Menntavísindasviðs HÍ, Collegium Civitas og University of Northampton.

Hvað er samfélagsleg nýsköpun?
Helsti munurinn á hefðbundinni og samfélagslegri nýsköpun er að sú síðari felur í sér áform um að bæta umhverfið eða samfélagið með einhverjum hætti. Oft er samfélagsleg nýsköpun skilgreind þannig, að verðmætin sem skapast með nýsköpuninni renna fyrst og fremst til samfélagsins frekar en til tiltekinna einstaklinga. Það er að segja að samfélagsleg nýsköpun miðar að því að skapa nýjungar sem hjálpa til við að takast á við áskoranir samfélagsins – eða eins og segir í þessu myndskeiði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, samfélagsleg nýsköpun er „snjallar hugmyndir sem auka velferð og lífsgæði“.

Dæmi um samfélagslega nýsköpun eru mörg og fjölbreytt:

  • Víða í Evrópskum borgum hafa verið stofnuð fyrirtæki (sjá Goodwill CIC í Northampton, UK sem dæmi) sem ráða sérstaklega til sín fólk sem hefur átt erfitt uppdráttar, t.d. heimilislausa eða afbrotafólk sem hefur lokið afplánun. Fólkið fær þannig tækifæri til að koma undir sér fótum og hljóta þjálfun sem styrkir stöðu þess á vinnumarkaðnum og dregur úr líkum á að það endi aftur á götunni eða brjóti af sér aftur.
  • Í borg einni í Austur-Evrópu var hópur ungmenna sem þreyttist á því að umferðareyjar borgarinnar væru vanhirtar og þaktar arfa. Hann tók sig til og hóf að bjóða til sölu á bensínstöðum borgarinnar ódýra pakka af villiblómafræjum sem ökumenn kasta út um gluggan þegar þeir keyra framhjá umferðareyjunum og fegra þannig umhverfi sitt.
  • Carbon Recycling International er íslenskt fyrirtæki sem endurvinnur mengandi koltvíoxíð til að búa til eldsneyti. Þannig stuðlar fyrirtækið að því að eldsneytisþörf sé mætt en dregur um leið úr mengun.
  • Segja má að fræðslu- og skólastarf á Íslandi hafi að miklu leyti mótast af samfélagslegri nýsköpun óeigingjarna og framsækinna frumkvöðla sem höfðu það að markmiði að bæta hag þjóðarinnar.

Samfélagsleg nýsköpun í skólastarfi
Í dag er lögð töluverð áhersla á að efla tengsl skóla, atvinnulífs og samfélags á öllum skólastigum. Þar getur samfélagsleg nýsköpun gengt mikilvægu hlutverki sem fyrirmynd fyrir þróun verkefnamiðaðs náms í takt við þarfir samfélagsins. Samfélagsleg nýsköpun byggist fyrst og fremst á þrennu. Í fyrsta lagi að viðkomandi hafi góð tengsl við nærsamfélagið til að geta áttað sig á hvar áskoranir liggja. Í öðru lagi þarf viðkomandi að geta sett sig í fótspor þeirra sem áskoranirnar ná til. Í þriðja lagi þarf viðkomandi að afla sér og nýta margvíslega þekkingu til að móta nýjar leiðir til að takast á við áskoranir í takt við samfélagslega þróun.

Unnið hefur verið að því að samþætta samfélagslega nýsköpun í skólastarf víða og á öllum skólastigum. Sem dæmi má nefna:

  • University of Northampton – Samfélagsleg nýsköpun hefur áhrif á alla stefnumótun, kennslu og rannsóknarstarf háskólans.
  • Social Innovation Meets School – Þýskt verkefni sem miðar að því að efla nýsköpunarmennt í skólum með áherslu á samfélagslega nýsköpun. Aðilar verkefnisins hafa unnið með skólastjórnendum og kennurum í þýskum skólum og erlendum.
  • Digital Human Library – DHL er kanadískt verkefni sem hefur m.a. unnið með fyrirtækjum, stofnunum og skólum til að þróa áhugaverð skapandi verkefni fyrir skólakrakka. Verkefnin eru hönnuð til að hvetja skólakrakka til að kynna sér nærsamfélag og umhverfi sitt og hugsa um leiðir til að takast á við áskóranir.

Í samfélagslegri nýsköpun felast áhugaverðar leiðir til að tengja skólastarf við samfélagið og hvetja nemendur til að huga að því hvernig þeir geta bætt umhverfi sitt. Samfélagsleg nýsköpun fellur líka vel að nútíma áherslum í skólastarfi og getur stutt aukin tengsl skóla og samfélags, verkefnamiðað nám, skapandi skólastarf, lausnamiðað nám og margt fleira.

Viltu læra meira um samfélagslega nýsköpun?
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér betur samfélagslega nýsköpun og hvernig hún getur tengst skólastarfi munu bráðum hafa kost á að taka þátt í netnámskeiðum sem verið er að þróa í tengslum við verkefni Menntamiðju. Námskeiðin verða kynnt á vef verkefnisins og Menntamiðju þegar þau eru aðgengileg.