Fréttir – Heimspekitorg: Dialogos-vinnustofa

Félag heimspekikennara auglýsir námskeið helgina 13.–15. september 2019

Leiðbeinendur:

Guro Hansen Helskog
Michael Noah Weiss

Í þriggja daga vinnustofu munu Guro og Michael leiða samræður um heimspekilegar spurningar sem snerta okkur persónulega. Þau munu kynna mismunandi aðferðir til að nálgast viðfangsefnin.

Námskeiðið nýtist kennurum sem vilja innleiða samræðu í kennslustofunni. Samræða eflir sjálfstraust, æfir tjáningu og stuðlar að lýðræðislegum skóla. Aðferðirnar sem kynntar eru í vinnustofunni nýtast þó alls staðar þar sem hópar koma saman, hvort sem það er í fjölskyldu, atvinnulífi eða félagasamtökum.

Guro er dósent við Universitetet i Sørøst-Norge (USN). Hún hefur langa reynslu af iðkun heimspekilegrar samræðu og er höfundur bókarinnar Philosophising the Dialogos Way towards Wisdom in Education gefin út af Routledge 2019.

Michael er dósent við sama háskóla. Hann hefur þróað hugleiðsluaðferð sem hann kallar guided imagery.

Svona lýsir Guro nálgun sinni:

„Dialogos-vinnustofa eða dialogos-samræður þýðir að við fáumst við heimspekilegar hugmyndir og hugtök bæði út frá reynslu og út frá röklegum, tilfinningalegum, tilvistarlegum og andlegum forsendum. Þungamiðja aðferðarinnar er sameiginleg rannsókn á fyrirbærum í lífslistinni. Meðal æfinga sem við gerum má nefna sókratíska samræðu, hugleiðslu, rök með og móti, heimspekilegar gönguferðir, æfingar um líkama og huga sem og samræður sem ganga út frá texta og tilfinningum. Diologos stendur fyrir uppeldislega og heimspekilega vinnu sem miðar að því að næra innra líf okkar og tengsl við aðra með því að leita í sameiningu að visku eftir mismunandi leiðum.“

Námskeiðið fer fram á ensku.

Staður:
Réttarholtsskóli

Tími: 13.–15. september (föstudagur kl. 17–20, laugardagur kl. 9–12 og 13–15, sunnudagur 11–14)

Þátttaka
tilkynnist í tölvupósti á heimspekikennarar@gmail.com

Þátttaka
er staðfest með því að greiða námskeiðgjaldið:

kt. 671296-3549
rn. 140-26-000584
Fréttir – Heimspekitorg: Vel heppnað námskeið um beitingu heimspekinnar í samfélagsfræði- og íslenskukennslu

Félag heimspekikennara stóð fyrir námskeiðinu Að beita aðferðum heimspekinnar í samfélagsfræði- og íslenskukennslu þriðjudaginn 20. ágúst s.l. Fjallað var um hvernig heimspekin getur lagt til ákveðnar aðferðir við að fást við hin ýmsu viðfangsefni sem íslensku – og samfélagsgreinakennarar fást við. Gagnlegar æfingar, verkefni og ýmis viðfangsefni voru kynnt sem kennarar geta nýtt sér í kennslustundum.

Áhersla var lögð
á að skoða hvernig vinna megi með spurningar, fullyrðingar, hugtakagreiningu,
skoðanamyndun, rök og samræður svo fáein dæmi séu nefnd. Þátttakendur fengu
einnig að spreyta sig á nokkrum vel völdum verkefnum.

Kennari á námskeiðinu var Jóhann Björnsson grunnskólakennari og doktorsnemi í heimspeki menntunar.
Fréttir – Heimspekitorg: Að beita aðferðum heimspekinnar í samfélagsfræði – og íslenskukennslu

Langar þig stundum til þess að breyta til og brjóta upp
kennslustundirnar? Langar þig til þess að efla skapandi og gagnrýna hugsun í
því fagi sem þú kennir? langar þig til að hvetja nemendur þína til að rökræða
námsefnið? Viltu næra undrun nemenda þinna?

Félag heimspekikennara heldur námskeið um það hvernig nota
megi aðferðir heimspekinnar í kennslustundum í íslensku og samfélagsfræði.
Leiðirnar sem kynntar verða eru auðveldar í framkvæmd og tilvaldar til þess að
auka fjölbreytnina í skólastarfi og geta þær tekið þann tíma sem hver kennari
vill.

Þótt fyrst og fremst sé horft til kennara í íslensku og
samfélagsgreinum eru allir kennarar velkomnir enda má yfirfæra viðfangsefni námskeiðiðins
yfir á fleiri greinar en íslensku og samfélagsfræði.

Staður og tími: Réttarholtsskóli við Réttarholtsveg,
þriðjudaginn 20. ágúst kl. 09.00-12.00.

Kennari: Jóhann Björnsson kennari við Réttarholtskóla
og doktorsnemi í heimspeki með börnum og unglingum

Þátttökugjald: 5.000 kr.

Þátttaka tilkynnist til Jóhanns Björnssonar, í tölvupósti á johannbjo@gmail.com

Þátttaka er staðfest með því að greiða námskeiðgjaldið:

kt. 671296-3549
rn. 140-26-000584

___________

Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum. Það vinnur að ýmsum verkefnum með það fyrir augum að efla heimspekikennslu á öllum skólastigum. Sjá nánar um félagið , tilgang þess og sögu, á eftirfarandi upplýsingasíðu.
Menntavísindasvið HÍ og SFS: Vorblót 2019

Á mánudag 13. maí kl. 14:00-18:00 verður haldið Vorblót ætlað öllum sem áhuga hafa á uppeldis- og menntamálum. Að Vorblóti 2019 standa Menntavísindasvið HÍ og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar í samvinnu við fulltrúa frá Listaháskóla Íslands, Kópavogi, Hafnarfirði, RÚV, List fyrir alla, Menntamálastofnun og fleiri. Vorblótið verður haldið í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ v/ Stakkahlíð.

Í boði verða menntabúðir, kynningar á skóla- og frístundastarfi, sýningar, umræður og margt fleira.

Þeir sem hafa áhuga á að vera með framlag geta skráð sig til að taka þátt í menntabúðum, vera með veggspjaldakynningu eða með stutta kynningu/smiðju. Einnig eru aðrir sem vilja mæta eða taka þátt hvattir til að skrá sig.

Nánari dagskrá er í vinnslu og verður kynnt síðar á vefsíðu Vorblótsins.
Framtíðatorg: Ný skýrsla um framtíðarmiðaða menntastefnu í ýmsum löndum

Nýlega kom út skýrsla um hæfni skólakerfa til að mæta þörfum framtíðarinnar. Skýrslan heitir The Worldwide Educating for the Future Index: Building tomorrow’s global citizens, og er unnin af The Economist Intelligence Unit fyrir The Yidan Prize, sem er styrktarsjóður stofnaður af kínverjanum, Dr. Charles Chen Yidan. Eins og í svo mörgu sem tengist skólaþróun eru það Finnar sem koma bestir út, en fast á hælum þeirra er lönd eins og Nýja Sjáland, Kanada og Singapúr, sem einnig hafa komið vel út í öðrum alþjóðlegum samanburðarrannsóknum.

Þetta er í annað sinn sem gefin er út skýrsla af þessu tagi. Sú fyrsta kom út 2017 og lagði grunninn að samanburðarhæfri vísitölu sem er ætlað að mæla hæfni skólakerfa til að mæta þörfum framtíðarinnar. Í þessari nýju skýrslu er farið yfir ýmsar breytingar sem hafa verið gerðar á vísitölunni. Meðal annars hafa bæst við 5 ný viðmið, sem hafa mest með stefnumótun og kennsluumhverfi að gera. Einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar á eldri viðmiðum. t.d. til að auka vægi alþjóðavæðingar í menntun.

Eins og áður segir, koma Finnar best út í þessari úttekt. Það sem hefur hvað mest að segja þar er hversu framtíðarmiðað stefnumótunarumhverfi þeirra er. Finnar hafa lengi safnað kerfsibundið gögnum um framtíðarhæfniþarfir samfélagsins, sem þeir svo nýta í mótun menntastefnu. Einnig er stefnumótunarumhverfi þeirra mjög sveigjanlegt og gefur því færi á að bregðast fljótt við breyttum aðstæðum og þörfum, en endurskoðun og uppfærsla á stefnuyfirlýsingum, námskrám og öðrum stefnumótandi tólum fer fram að jafnaði árlega.

Skýrslan lýsir áhugaverðu þróunarstarfi, sem við gætum nýtt okkur í stefnumótun hér á landi til að auka getu okkar til að takast á við langtíma áskoranir sem tengjast menntun. Hins vegar er ýsmislegt sem má gagnrýna varðandi viðmiðin og vísitöluna almennt. Það er ekki lítið mál að búa til viðmið og vísitölur sem gefa raunverulega samanburðarhæfar upplýsingar um skólamál í ólíkum löndum. Til dæmis vakti það mína athygli að á þeim eina stað þar sem Íslandi er nefnt (en Ísland var ekki formlega með í verkefninu) er fjallað um kennslu í erlendum tungumálum á framhaldsskólastigi í mismunandi löndum. Ísland er þar mjög neðarlega í samanburði við önnur lönd og sagt að aðeins um 63% af íslenskum framhaldsskólanemum læri tvö erlend tungumál eða fleiri. Sú tala þykir mér mjög ólíkleg þar sem langflestir framhaldsskólanemar eru skyldaðir til að læra minnst tvö erlend tungumál, ef ekki þrjú. Sá grunur læðist að mér að hér sé verið að nota gögn sem Hagstofa Íslands hefur safnað, en þau lýsa hversu margir framhaldsskólanemar eru skráðir í áfanga í erlendum tungumálum hverju sinni, ekki hversu margir læra tungumál á námsferlinu (ef ég er að lesa þetta rétt).

Þrátt fyrir ýmsar jákvæðar breytingar á viðmiðum og aðferðum í 2018 útgáfunni má gera nokkrar athugasemdir, sem vonandi verður tekið tillit til í næstu uppfærslu. Til dæmis virðist lítið horft til þess hvernig, jafnvel hvort, stefnumótendur eru að huga að þekktum óvissuþáttum eins og möguleg áhrif sem aukin notkun gervigreindar, sýndarveruleika og gagnaukins veruleika munu hafa á félagslegan og tæknilegan veruleika sem ungt fólk mun upplifa í framtíðinni. Einnig mætti taka tillit til tímasetninga sem stefnumótendur miða við í sínum framtíðarpælingum – er verið að horfa til 5 ára (sem telst varla framtíð í framtíðarfræðum), 15 ára (ca. tíminn sem nemendur eru í skólakerfinu), 25 ára (tíminn þangað til að gera má ráð fyrir börn sem eru núna að hefja nám fari að taka við stjórnartaumum í samfélaginu). Enn eitt sem ég held að mætti huga að í þessu verkefni er hversu miklir þátttakendur tiltekin lönd eru í mótun nýrrar tækni. Til dæmis lenda Bandaríkin nokkuð neðarlega í heildarmatinu, en þá er ekki horft til þess forskots sem þeir hafa á öðrum varðandi aðgengi að nýjustu tækni. Við sjáum bersýnilega merki þess í dag að þetta skiptir í máli, eins og með útbreiðslu gervigreindar (t.d. Google Assistant, Alexa o.fl.) sem er háð tungutækni og netvæðingu ýmissar þjónustu sem verður að miklu leyti svæðisbundin. Sú gervigreind sem er á markaði í dag og hægt er að kaupa í Elkó hjá okkur getur gert mun minna fyrir okkur en sömu vörurnar í Bandaríkjunum af þessum ástæðum. Sýnir sannleikann í orðum vísindaskáldsöguhöfundarins William Gibson, sem hefur sagt, „The future is already here – it’s just not evenly distributed.“

En þetta er verk í mótun og mjög áhugavert sem slíkt. Vissulega eru veikleikar en einnig getur þetta orðið mjög gagnlegt. Sérstaklega má nota þau gögn sem birtast í skýrslunni til að beina sjónum okkar að þeim svæðum þar sem verið er að gera góða hluti í tengslum við stefnumótun. En það er ekki nóg að vita bara hvar er verið að gera goða hluti, við þurfum líka að líta svolítið undir yfirborðið og skoða vel hvað felst í þessum góðu hlutum og hvað gæti hentað okkur.
Samspil Menntamiðju í nýrri skýrslu um framsæknar leiðir í starfsþróun kennara

Nýlega kom út skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovating Professional Development in Compulsory Education, um nýjar og framsæknar leiðir í starfsþróun kennara. Meðal fyrirmynda sem fjallað er um er Samspil 2015 sem Menntamiðja stóð fyrir og sem Samspil 2018, sem nú er í gangi, byggir á. Forsendur sem Sampilið byggði á eru reifaðar og einnig fjallað almennt um starfsemi Menntamiðju og hvernig hún hefur stutt við starfsþróun kennara á Íslandi.

Samspil Menntamiðju er eitt af 30 fyrirmyndum sem er fjallað um í skýrslunni og er þar margt áhugavert sem mætti nýta hér á landi.
Framtíðatorg: Skýrsla nefndar forsætisráðherra um 4. iðnbyltinguna

Út er komin skýrslan Ísland og fjórða iðnbyltingin sem er afrakstur nefndar forsætisráðherra um áhrif tækniþróunar á atvinnulíf á Íslandi. Í skýrslunni er fjallað fyrst og fremst um gervigreind og sjálfvirknivæðingu og fyrirsjáanleg áhrif þeirra á atvinnulífið og komið lítillega inn á þýðingu þessara breytinga fyrir menntun. Vakin er athygli á nauðsyn þess að menntakerfið komi að verkefnum sem þarf að vinna í tengslum við fyrirsjáanlegar breytingar en ekki settar fram markvissar tillögur.

 
Fréttir – Heimspekitorg: Hvað er heimspeki með börnum?

Heimspeki með börnum er stunduð víða í íslenskum menntastofnunum. Hverjir geta ástundað hana? Hvaða þekkiungu þarf leiðbeinandinn að hafa? Hvað er heimspeki með börnum? Á hún heima í skólastofunni eða utan skólans? Slíkar spurningar eru meðal viðfangsefni Félags heimspekikennara. Í grein sinni Eru börn heimspekingar? reynir Kristian Guttesen að varpa ljósi á sumum af þessum spurningum.

Þann 15. febrúar hélt Jón Thoroddsen fræðsluerindi á vegum Félags heimspekikennara um kenslóbók sína, Gagnrýni og gaman. Viðburðurinn var fjölsóttur og þótti fundargestum fróðlegt að hlusta á lýsingu Jóns á bókinni, sem hann sagði vera sögu kennara, þróun aðferðar og leiðbeiningar um beitingu þeirrar aðferðar.

Fjórði viðburður ársins er eins dags námskeið á vegum Félags heimspekikennara og rannsóknaverkefnisins Líkamleg gagnrýnin hugsun. Donata Scheller kynnir kenningar um og aðferðir líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar, en áhersla verður lögð á verklegar æfingar sem byggja á þeirri aðferðafræði sem hefur verið þróuð til að virkja, þjálfa og iðka líkamlega gagnrýna hugsun. Námskeiðið fer fram 30. mars 2019, kl. 9:30-17:00 í Odda 106 Háskóla Íslands. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður en þátttaka er ókeypis.

Greint er frá viðburðinum í nýjasta fréttabréfi Félags heimspekikennara (nr. 20, mars 2019). 
Samspil 2018 – fræðsluátak um starfsþróun í þágu menntunar fyrir alla

Í nóvember, 2018 hófst nýtt fræðsluátak Menntamiðju sem hefur hlotið heitið Samspil 2018. Um er að ræða fræðsluátak sem er ókeypis fyrir alla sem starfa við menntun (starfsfólk skóla, frístundaheimila, tónlistarskóla, safnræðslu og fleira). Samspil 2018 er starfsþróunarátak þar sem blandast saman fræðsla, samstarf og samnýting þekkingar og reynslu þeirra sem starfa í skólum í skemmtilegu og aðgengilegu námsumhverfi. Fræðsla fer að mestu fram á netinu og þátttakendur fá að kynnast því hvernig samfélagsmiðlar og tengslanet stuðla að uppbyggilegri og áframhaldandi starfsþróun. Skráning er enn opin og er hægt að skrá sig hér: http://samspil2018.menntamidja.is/skraning/

Lesa má meira um Samspil 2018 hér: http://samspil2018.menntamidja.is/hvad-er-samspil-2018/

Fræðslufundir sem þegar hafa farið fram eru aðgengilegir öllum á vef Samspils 2018.

Samspil 2018 er stutt af Samstarfsráði um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og Stýrihópi Menntunar fyrir alla.
Samfélagsleg nýsköpun í skólastarfi

Í vetur sóttu fimm nemar af Menntavísindasviði Háskóla Íslands alþjóðlegt námskeið um samfélagslega nýsköpun sem haldið var í Varsjá í Póllandi. Námskeiðið er hluti af Erasmus+ verkefni sem Menntamiðja tekur þátt í. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að aukinni samtengingu háskóla og samfélags með innleiðingu samfélagslegrar nýsköpunar í fræðslu og starfsemi.

Á námskeiðinu fengu nemendur að kynnast fræðilegum og praktískum hliðum á samfélaglegri nýsköpun og sérstaklega hvernig megi tengja hana við skólastarf. Kennarar á námskeiðinu voru sérfræðingar á ýmsum sviðum sem tengjast nýsköpun og menntun frá þeim aðilum sem taka þátt í Erasmus+ verkefninu sem eru: Collegium Civitas í Varsjá, University of Northampton í Englandi, Ashoka Poland og Menntamiðja Menntavísindasviðs HÍ. Þátttakendur voru nemendur Menntavísindasviðs HÍ, Collegium Civitas og University of Northampton.

Hvað er samfélagsleg nýsköpun?
Helsti munurinn á hefðbundinni og samfélagslegri nýsköpun er að sú síðari felur í sér áform um að bæta umhverfið eða samfélagið með einhverjum hætti. Oft er samfélagsleg nýsköpun skilgreind þannig, að verðmætin sem skapast með nýsköpuninni renna fyrst og fremst til samfélagsins frekar en til tiltekinna einstaklinga. Það er að segja að samfélagsleg nýsköpun miðar að því að skapa nýjungar sem hjálpa til við að takast á við áskoranir samfélagsins – eða eins og segir í þessu myndskeiði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, samfélagsleg nýsköpun er „snjallar hugmyndir sem auka velferð og lífsgæði“.

Dæmi um samfélagslega nýsköpun eru mörg og fjölbreytt:

  • Víða í Evrópskum borgum hafa verið stofnuð fyrirtæki (sjá Goodwill CIC í Northampton, UK sem dæmi) sem ráða sérstaklega til sín fólk sem hefur átt erfitt uppdráttar, t.d. heimilislausa eða afbrotafólk sem hefur lokið afplánun. Fólkið fær þannig tækifæri til að koma undir sér fótum og hljóta þjálfun sem styrkir stöðu þess á vinnumarkaðnum og dregur úr líkum á að það endi aftur á götunni eða brjóti af sér aftur.
  • Í borg einni í Austur-Evrópu var hópur ungmenna sem þreyttist á því að umferðareyjar borgarinnar væru vanhirtar og þaktar arfa. Hann tók sig til og hóf að bjóða til sölu á bensínstöðum borgarinnar ódýra pakka af villiblómafræjum sem ökumenn kasta út um gluggan þegar þeir keyra framhjá umferðareyjunum og fegra þannig umhverfi sitt.
  • Carbon Recycling International er íslenskt fyrirtæki sem endurvinnur mengandi koltvíoxíð til að búa til eldsneyti. Þannig stuðlar fyrirtækið að því að eldsneytisþörf sé mætt en dregur um leið úr mengun.
  • Segja má að fræðslu- og skólastarf á Íslandi hafi að miklu leyti mótast af samfélagslegri nýsköpun óeigingjarna og framsækinna frumkvöðla sem höfðu það að markmiði að bæta hag þjóðarinnar.

Samfélagsleg nýsköpun í skólastarfi
Í dag er lögð töluverð áhersla á að efla tengsl skóla, atvinnulífs og samfélags á öllum skólastigum. Þar getur samfélagsleg nýsköpun gengt mikilvægu hlutverki sem fyrirmynd fyrir þróun verkefnamiðaðs náms í takt við þarfir samfélagsins. Samfélagsleg nýsköpun byggist fyrst og fremst á þrennu. Í fyrsta lagi að viðkomandi hafi góð tengsl við nærsamfélagið til að geta áttað sig á hvar áskoranir liggja. Í öðru lagi þarf viðkomandi að geta sett sig í fótspor þeirra sem áskoranirnar ná til. Í þriðja lagi þarf viðkomandi að afla sér og nýta margvíslega þekkingu til að móta nýjar leiðir til að takast á við áskoranir í takt við samfélagslega þróun.

Unnið hefur verið að því að samþætta samfélagslega nýsköpun í skólastarf víða og á öllum skólastigum. Sem dæmi má nefna:

  • University of Northampton – Samfélagsleg nýsköpun hefur áhrif á alla stefnumótun, kennslu og rannsóknarstarf háskólans.
  • Social Innovation Meets School – Þýskt verkefni sem miðar að því að efla nýsköpunarmennt í skólum með áherslu á samfélagslega nýsköpun. Aðilar verkefnisins hafa unnið með skólastjórnendum og kennurum í þýskum skólum og erlendum.
  • Digital Human Library – DHL er kanadískt verkefni sem hefur m.a. unnið með fyrirtækjum, stofnunum og skólum til að þróa áhugaverð skapandi verkefni fyrir skólakrakka. Verkefnin eru hönnuð til að hvetja skólakrakka til að kynna sér nærsamfélag og umhverfi sitt og hugsa um leiðir til að takast á við áskóranir.

Í samfélagslegri nýsköpun felast áhugaverðar leiðir til að tengja skólastarf við samfélagið og hvetja nemendur til að huga að því hvernig þeir geta bætt umhverfi sitt. Samfélagsleg nýsköpun fellur líka vel að nútíma áherslum í skólastarfi og getur stutt aukin tengsl skóla og samfélags, verkefnamiðað nám, skapandi skólastarf, lausnamiðað nám og margt fleira.

Viltu læra meira um samfélagslega nýsköpun?
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér betur samfélagslega nýsköpun og hvernig hún getur tengst skólastarfi munu bráðum hafa kost á að taka þátt í netnámskeiðum sem verið er að þróa í tengslum við verkefni Menntamiðju. Námskeiðin verða kynnt á vef verkefnisins og Menntamiðju þegar þau eru aðgengileg.