Hönnunarsmiðja í Hólabrekkuskóla

Kennarar í Hólabrekkuskóla nýttu sér reynsluna af hönnunarsmiðjunni sem MenntaMiðja og fleiri stóðu fyrir síðasta nóvember til að leita nýrra lausna á áskorunum sem skólinn stendur fyrir á nýju ári. Hér á eftir er frásögn Önnu Maríu Þorkelsdóttur, kennara í Hólabrekkuskóla, af hönnunarsmiðjunni, en hún sá um skipulag hennar.

Hönnunarsmiðja 3. janúar í Hólabrekkuskóla

holabrekka3

Hönnunarútkoman sýnir vel helstu áherslur sem hönnunarteymið tók mið af (smellið til að sjá stærri mynd).

Fyrsta vinnudag á nýju ári mættu kennarar og stuðningsfulltrúar í hönnunarsmiðju þar sem ætlunin var að fá innsýn inn í hvernig þeir sæju fyrir sér nauðsynlega þróun á næstu árum í skólanum og til að sjá hvernig breytingar þeir væru aðallega að horfa til. Þróunarteymi skólans mun nota niðurstöður smiðjunnar til að koma á þeim breytingum sem eru gerlegar og setja framkvæmdamarkmið fyrir skólann til 3. og 10 ára.

Átta hópar voru að vinnu, þar sem fjórir hópar voru með verkefnið Nýr skóli og hinir fjórir með verkefnið Breyttur Hólabrekkuskóli. Verkefnin voru keimlík og það voru niðurstöður hópanna líka í grunninn þó að kynningarnar hafi verið mjög ólíkar.

Það sem stóð upp úr voru miklar breytingar á stundatöfluformi og það var mikill vilji til að hafa þær opnar í stað þess að tímar séu niðurnjörvaðir. Kennsla eftir getustigum í stað árganga kom líka oft upp og þá var t.d. nefnt að nemendur ættu að hafa náð einhverjum stigum til að fá að halda áfram. Nemendur sem ekki hefðu náð 7. stigi áður en þeir færu í unglingadeild, færu ekki bóknámsleiðina heldur fengju önnur úrræði. Verknám var líka nefnt og þá sem mun stærri hluti af námi en er í dag. Starfsnám og starfskynning fékk líka umfjöllun og það kom hugmynd um að nemendur á flestum stigum skólans væru í tengslum við atvinnulífið á einhvern hátt og hefðu þá betri tilfinningu fyrir tilgangi námsins. Það að nemendur sæju ekki tilgang með verkefnum eða fögum var talinn (í mörgum hópum) vera eitt af aðalvandamálum okkar. Samvinna nemenda og kennara fékk mikla umfjöllun og talin var þörf á ýmsum teymum í skólanum til að halda utan um þá samvinnu og samþættingu faga sem smiðjuþátttakendum fannst nauðsynleg. Einn hópurinn bjó til stundatöflu þar sem tónlist, yndislestur, hreyfing og val var stór hluti skóladagsins, ásamt verkefnavinnutímum (heimavinnu), en í stað venjubundinna faga var hluti dagsins tekinn undir þátt sem þau kölluðu Grunnur (læsi) og var þá sá tími ætlaður þessum samþættu fögum.

holabrekka2

Hönnunarnálgun hvetur þátttakendur til að hugsa með höndunum eins og með heilanum í útfærslu lausna.

Val nemenda og ábyrgð kom nokkrum sinnum upp í kynningunum. Hóparnir nefndu að nemendur allt niður í 3. bekk ættu að hafa val um hvað þeir vildu læra en flestir voru þó inn á einhvers konar stýringu kennarans þannig að nemandi færi nú ekki í gegnum skólann án þess að hafa lært einhver tiltekin fög. Ein hugmyndin var að nemendur fengju viss verkefni til að leysa yfir daginn, en að þau stjórnuðu sjálf hvernig verkefnin væru unnin og á hvaða tíma. Þannig að ef að nemendur vildu vera aðeins lengur í frímínútum þá væri það í lagi, eða ef að þau vildu eyða aðeins meiri tíma í eitt verkefni en annað, þá væri það í lagi. Annar hópur taldi þau jafnvel geta haft val um verkefni, en yrðu þá kannski að velja 4 af 6 verkefnum innan vissra tímamarka. Markmiðið væri bara að verkefnið kláraðist innan þess tímaramma sem settur væri og nemandinn hefði val um hvernig sú vinna yrði innt af hendi.

Einn hópurinn var með þá hugmynd að nemendur væru búnir að ná vissri tækni á yngsta stigi en ef að þeir væru ekki komnir nógu langt, þá hefðu þeir val um að fara í meira verk- eða listnám. Þannig að val nemenda var eitt af grunnhugmyndunum í smiðjunni.
Róttækustu hugmyndirnar fólu í sér að setja flögur í nemendur til að hægt væri að fylgjast betur með þeim og að hefðbundin skólalok yrðu eftir 7. bekk. Nám eftir þann tíma yrði verklegt og í fjarnámi. Nemendur yrði svo prófaðir í lokaprófum við lok 10. bekkjar. Sú hugmynd er þó alveg gerleg, að minnsta kosti auðveldari kostur en að setja flögur í nemendur.

holabrekka1Niðurstöðurnar verða svo skoðaðar af þróunarteyminu á næstu vikum og framkvæmdaáætlun sett í gang á vormánuðum.

Anna María Þorkelsdóttir, Hólabrekkuskóla

youjizz