Fræðasamfélagið ræðir málefni framhaldsskóla

HvitbokUndanfarna daga hefur farið fram umræða meðal fræðimanna Menntavísindasviðs HÍ um Hvítbók menntamálaráðuneytisins og málefni framhaldsskóla á innanhús tölvupóstlista starfsfólks sviðsins. Hér birtum við helstu innlegginn úr þessari umræðu með góðfúslegu leyfi höfunda.

Við hvetjum áhugasama til að halda umræðunni áfram í Facebook hópi MenntaMiðju.

Umræðan hefst með greinaskrifum Gests Guðmundssonar um „íslenska módel“ framhaldsskólanáms í sumar og viðtal við hann í RÚV í haust:

gesturgudmGestur Guðmundsson, prófessor í félagsfræði menntunar: Vafasamt meginmarkmið
(Greinin birtist á vef Vísis 3. júlí, 2014)

Fyrir fáum dögum gaf menntamálaráðuneytið út Hvítbók um umbætur um menntun, þar sem áhersla er lögð á tvö meginmarkmið – að 90% grunnskólanema nái lágmarksviðmiðum í lestri, í stað 79% nú, og að 60% ljúki framhaldsskólanámi á tilsettum tíma í stað 44% nú. Ég vil gera athugasemdir við síðara atriðið.

Ofangreint markmið miðast við 4 ár sem „tilsettan tíma“ í framhaldsskólanámi, en það er ekki réttmætt um allt framhaldsskólanám. Sá þriðjungur sem hafið hefur nám á almennri braut, hefur ekki haft tilskilinn undirbúning heldur varið minnst einu framhaldsskólaári í nám sem ekki er metið til framhaldsskólaprófs. Því nemur eðlileg námslengd þeirra réttilega 5 árum, og yfir 50% árgangs ljúka framhaldsskólanámi á tilsettum tíma.

Vinna meira með námi
Íslensk ungmenni vinna meira með námi en jafnaldrar í öðrum Evrópulöndum. Um 40% framhaldsskólanema hafa unnið meira en 12 tíma á viku með náminu og margir þeirra dregið talsvert úr námshraða. Þegar íslensk ungmenni verða tvítug hafa þau líklega að meðaltali unnið samanlagt milli eitt og tvö ársverk á almennum vinnumarkaði, og því er það ekki undarlegt að algengasti aldur við lok framhaldsskólaprófs á Íslandi er 20 ár, en almennt 19 ár hjá þjóðum með líkt skólakerfi.

Vinna með námi og brotthvarf tengist ekki síst velferðarstefnu íslenskra stjórnvalda. Foreldrar njóta nú nokkurs stuðnings við framfærslu barna sinna fram að átján ára aldri, en frá 18 ára aldri og allt þar til ungmennið hefur nám á háskólastigi er það á „einskis manns landi“. Þá nýtur hvorki ungmennið né foreldrar þess framfærslustuðnings hins opinbera (einungis óverulegs skattaafsláttar), og ungmennum er einnig gert að borga sjálf kennslubækur sínar.

Í hvítbókinni er sagt, að í Danmörku taki menntaskólanám þrjú ár en fjögur ár á Íslandi. Í þessum samanburði gleymist að Danir hleypa ungmennum ekki inn í framhaldsskóla fyrr en þau eru tilbúin til þess. Í fyrsta lagi þykir það ekki tiltökumál í Danmörku að seinka börnum í barnaskóla þannig að um fimmtungur lýkur grunnskóla 17 ára eða eldri. Í öðru lagi fer einungis um helmingur Dana beint úr grunnskóla í framhaldsskóla en hinn helmingurinn fer minnst eitt ár í framhaldsdeild grunnskóla eða á lýðháskóla til að undirbúa sig betur fyrir framhaldsskólann. Af þessu leiðir samanlagt að við útskrift úr dönskum framhaldsskólum er einungis um þriðjungur 19 ára en flestir 20 ára eða eldri. Þá veita Danir námsstyrki framhaldsskólanemum sem orðnir eru 18 ára, enda vinna þeir sjaldan meira en 10 tíma á viku.

Markmið ekki bundin við aldur
Eðlilegt meginmarkmið fyrir íslensk ungmenni er að skólar, atvinnulíf og samfélagið allt veiti öllum ungmennum menntun, starfsreynslu og tækifæri til að taka fullan þátt í íslensku atvinnulífi. Eðlilegt er að gera slíkt meginmarkmið áþreifanlegra með markmiðum um hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólaprófi sem er metið af atvinnulífi og háskólum. En það er engan veginn rétt að binda slíkt markmið við tiltekinn aldur heldur eigum við að viðurkenna að sumir þurfa lengri tíma, að sum ungmenni þurfa að afla meira til eigin framfærslu en önnur og að sumum ungmennum hentar það betur að taka styttri og lengri hlé frá framhaldsskólanámi en að ljúka því í einum rykk. Við eigum að fagna þeirri sérstöðu íslensks samfélags að veita betri tækifæri en flest eða öll önnur samfélög til að ljúka framhaldsskólanámi fram eftir aldri.

Réttast að taka hlé frá námi
Á bak við stefnumiðið um „fleiri námslok á tilsettum tíma“ búa vissulega réttmætar áhyggjur af þeim fjölmörgu íslensku framhaldsskólanemum sem „finna sig ekki“ í náminu, og hvítbókin tekur réttilega undir ábendingar um aðgerðir sem greina slíkan vanda snemma og taka á honum. En oft eru réttustu aðgerðirnar að nemendur taki sér hlé frá námi og endurheimti áhuga og námshvata við annað en venjulegt framhaldsskólanám. Í Danmörku fara slíkir nemendur oft í lýðháskóla eða í fjölsmiðjur í eitt ár, en á Íslandi hafa þeir betri tækifæri en annars staðar til að fara í gegnum þroskandi ferli á vinnumarkaði á táningsaldri. Mikil atvinnuþátttaka íslenskra ungmenna felur þannig í sér jákvæða þætti, en hin neikvæða hlið hennar er fyrst og fremst sú að mörg ungmenni eru knúin til mikillar vinnu vegna takmarkaðra fjárráða á heimili og lítils stuðnings hins opinbera.

Í stað þess að hoppa á einum fæti til framtíðar með fleiri námslok á tilsettum tíma að leiðarljósi, ættum við að nota hinn fótinn líka og nýta enn betur samspilið á milli atvinnulífs, sem býður ungu fólki tækifæri, og vilja fólksins til að snúa aftur í nám. Og ef við viljum halda ungu fólki betur að námi á táningsárunum þurfum við meðal annars að íhuga þá lausn að veita framhaldsskólanemendum, sem orðnir eru 18 ára, námsstyrki að uppfylltri eðlilegri námsframvindu.

Sjá einnig viðtal við Gest Guðmundsson í RÚV (Fyrst birt: 16.10.2014): Íslenska módelið vanmetið

 [Þeir sem verða útilokaðir frá framhaldsskóla] er fólk sem er að koma aftur eftir að hafa lent í vandræðum í skóla eða hætt og gjarnan nemendur verið að vinna, eignast börn, gera eitthvað annað fyrir samfélagið. Svo kemur það í skóla og nú allt í einu bara að loka á fólk. Það er svolítið skrýtið að ætla að byrja aðgerðir í menntamálum á neikvæðni gagnvart þeim hóp sem hvað höllustum fæti stendur.”

 

helgiskuliSendandi: Helgi Skúli Kjartansson
Til: Gestur Guðmundsson
CC: Starfsfólk menntavísindasviðs

Sæll Gestur.
Ég get tekið það til mín að hafa ekki tekið almennilega eftir greininni þinni í júlí, eða a.m.k. ekki brugðist við henni. (Ekki að ég hafi verið í neinum sérstökum sumargír, var að skila af mér yfirlestri fyrir Námsgagnastofnun og skipta mér af kennsluskipan á kjörsviði, en það kemur nú í sama stað niður.) Nú hlustaði ég á viðtalið og bar saman við greinina. Og víst er þetta verðugt umhugsunarefni fyrir okkur öll.

I
Fyrst rakst ég á smáatriði sem sýnir hve illa ég hef fylgst með þróun framhaldsskólans – og þarf þeim mun betur að passa mig í umræðu um hann. Það er almenna námsbrautin. Þú segir að þar hefji þriðjungur nám og hafi þá „varið minnst einu framhaldsskólaári í nám sem ekki er metið til framhaldsskólaprófs“. Mér kom á óvart að svo margir byrjuðu á þessari braut, en þegar ég gáði, þá voru tölurnar hærri en mig óraði fyrir.

Grunnskólanum ljúka um 4.500 nemendur á ári (rúmlega það 2005–2009, aðeins færri síðan). Í framhaldsskóla hafa undanfarin ár (2006–2012) verið skráðir yfir 25.000 nemendur, þ.e. meira en fimm heilir árgangar. Ef við lítum burt frá elstu nemendunum, úr árgöngum sem síður fóru í framhaldsskóla en nú tíðkast, má segja að ungmenni nútímans séu að jafnaði skráð í framhaldsskóla í fimm ár. En sumir byrja aldrei í framhaldsskóla, eða hætta fljótlega, svo að þeir sem á annað borð ljúka prófum hljóta að vera skráðir í framhaldsskóla full 6 ár að jafnaði. Enda dugir það sumum til að ljúka meira en einni námsleið.

Á almennri námsbraut hafa þessi sömu ár (2006–2012) verið skráðir að jafnaði 3.900 nemendur. Ef þangað kemur, eins og þú segir, þriðjungur hvers árgangs, þá eru það um 1.500 nemendur og hver þeirra þá skráður á almennu brautina hátt á þriðja ár að meðaltali. Braut þar sem suma nemendur „vantar ef til vill aðeins herslumun í kjarnagreinum“ (skv. aðalnámskrá) en námið getur annars „tekið eitt til tvö ár“.

Árið 2011 (finn ekki nýrri tölur) var rúmlega helmingur nemenda á almennri braut skráður í fjarnám, og var það drjúgur meirihluti af öllum fjarnemum framhaldsskólastigsins. Nú er það rökrétt, ef mann vantar ekki nema „herslumun“ í einni eða tveimur greinum, að vinna það upp í fjarnámi fremur en eyða heilli önn á skólabekk. En ef svo stendur á um marga af nemendum almennu námsbrautarinnar ætti meðalnámstíminn þar að teljast í önnum fremur en árum.

Almenna námsbrautin virðist sem sagt að mjög verulegu leyti vera skráningarkostur fyrir ungmenni sem eru nokkurn veginn hætt í skóla en ekki alveg búin að viðurkenna það fyrir sjálfum sér eða öðrum. En er líka vitað hve margir af hinum, sem raunverulega ljúka námi á framhaldsskólastigi, höfðu byrjað á almennri braut? Og þá ekki bara í örfáum áföngum heldur heils árs námi eða meir?

II
Þetta var tæknilegt smáatriði sem stendur í mér.

Hitt er stórt, og stendur aldeilis ekki í mér, að auðvitað er „íslenska módelið“ um launavinnu á námsárum miklu betra en það útlenda. Það getur enginn haldið í alvöru, nema þá kannski útlendingar sjálfir, að það sé í rauninni heppilegt að ungt fólk komi á vinnumarkaðinn að loknu námi, kannski 19 eða 22 eða 25 eða 28 ára gamalt, án þess að hafa nokkurn tíma borið þá ábyrgð sem fylgir launuðu starfi.

Jújú, það er mannlegt að gera gott úr því sem ekki verður breytt (make a virtue of necessity heitir það víst á útlensku). Og margra áratuga atvinnuskortur fyrir ungt fólk virðist hafa vanið a.m.k. sumar Evrópuþjóðir á að tala um þetta (og kannski hugsa um það líka?) eins og eðlilegt ástand. En „eðlilegt“ þýðir ekki æskilegt. Auðvitað er skaðlegt að skólagangan svipti ungt fólk tækifærunum til að venjast á eðlilegum aldri ábyrgð raunverulegrar vinnu og til að læra af fullorðnum með því að vinna með þeim (sem er allt annað en að læra undir stjórn fullorðinna, jafnvel andstæða þess; þess vegna er vinnuskólahugsjónin því miður svo erfið í framkvæmd).

Íslenska módelið í sinni klassísku útfærslu fólst í stuttu skólaári (þokaðist úr hálfu árinu upp í tvo þriðju) sem skildi eftir drjúgan tíma til að vinna (hálft árið fyrst, svo niður í þriðjung, rúman eða tæpan eftir því hvort unnið var í jólafríi). Þá gátu nemendur bæði vanist vinnu og aflað sér tekna utan skólaársins, og kennurum þurfti ekki að reikna fullt árskaup.

Þetta gekk ekki upp til lengdar. Sumartoppur atvinnulífsins (tengdur sveitavinnu, síldarvertíð, byggingarvinnu og annarri mannvirkjagerð, auk afleysinga í sumarfríum) lækkaði jafnframt því sem skólafólki (nemendum og kennurum) fjölgaði. Á endanum var ekki annað að gera en að lengja skólaárið, setja kennara á (nánast) fullt kaup, en ætla nemendum að vinna með námi yfir veturinn frekar en að hafa endilega uppgripavinnu í löngu sumarfríi. Skólarnir löguðu sig að þessu (unglingastigið ekki síður en framhaldsskólinn), vöndust því að fylla ekki vinnudag nemenda heldur skilja eftir svigrúm til annarra viðfangsefna, m.a. launavinnu. (Kannski líkt og við gerðum hér þegar við dreifðum kennaranáminu á fimm ár.)

Það var að vísu aldrei horfið frá því hreinskilnislega og opinberlega að skipuleggja framhaldsskólann sem fullt nám. Þess vegna fyllum við of mikið af vinnuviku nemenda með kennslustundum (sem eru huggulegt námsumhverfi en dýrt og afar óskilvirkt eitt og sér). Þar með venjum við unglinga af að læra með lestri (ódýru og fljótlegu aðferðinni fyrir þá sem á annað borð ná tökum á henni). Gerum svo vel meintar tilraunir til að endurlífga heimanám í annarri mynd (vendikennsla), en án þess að auka svigrúm fyrir það með færri kennslustundum.

Þannig má lengi nöldra yfir einu og öðru í útfærslunni. Sem breytir því þó ekki að íslenska módelið er í grunninn gott og skynsamlegt.

Þó við séum ekki vön að hrósa því beinlínis. Til dæmis kunnum við öll að útskýra hvað það er hollt fyrir ungmenni að sækja skipulegar æfingar hjá íþróttafélögum af því að venur fólk á að skipuleggja tíma sinn. Og erum þá í rauninni alveg eins að tala um gildi þess að skólafólk þurfi að mæta í vinnuna á réttum tímum. Við söfnum líka gögnum um það hvað íþróttaiðkendur standa sig að jafnaði prýðilega í skóla, en það er alveg óvart ef eitthvað svipað kemur í ljós um þá sem vinna með námi (sjá http://www.ismennt.is/not/gardarg/Vinna.doc, bls. 26–30).

III
Þó við viljum halda í þessa venju að unglingar vinni með skóla, þá segir sig ekki sjálft að þeir þurfi þeim mun fleiri skólaár í framhaldsskóla. Það er bara í vissum greinum (örugglega stærðfræði, örugglega ekki sögu, flóknara um sumar greinar) sem fleiri áfangar eða einingar jafngilda með nokkuð beinum hætti betri undirbúningi undir eitt eða annað, t.d. háskólanám. Hvenær það er tímabært að skipta úr almennu námi, svipuðu fyrir stóran hluta hvers árgangs, yfir í sérhæfðara nám, jafnvel starfsmiðað, það er spurning um aldur og þroska nemenda ekki síður en magnið af námsefni sem þeir hafa komist yfir á ferlinum.

Nú er stúdentspróf orðið miklu algengara en það var fyrir nokkrum áratugum. Af því mætti álykta:
Úr því nú er farið að miða stúdentsnámið við að þorri nemenda ráði við það, í stað þess að skipuleggja það beinlínis til þess að miðlungsnemendur ráði helst ekki við það, þá hlýtur það að vera minna sem krafist er að nemendur tileinki sér á hverri önn, og þá þarf að lengja námið til þess að það veiti jafngildan undirbúning, t.d. undir háskólanám.

Eða alveg gagnstætt:
Úr því svona margir ljúka stúdentsprófi, þá er minni sérhæfing fólgin í þess háttar námi, minna val eða ákvörðun að leggja út í það og markmið þess óhjákvæmilega almennari. Þess vegna er eðlilegt að stytta námið svo að nemendur fái á eðlilegum aldri að taka raunverulegar ákvarðanir um markmið sín í námi og framtíðarstarfi.

Af þessum gagnstæðu sjónarmiðum finnst mér meira vit í því síðara.

Til samanburðar: Af hverju viljum við (= Norðurlöndin) óbrautaskiptan grunnskóla, en höfnum þeirri gömlu hefð Vestur-Evrópu að skipta nemendum 11–12 ára gömlum í almenna braut og langskólabraut? Ekki vegna þess að 12 ára krakkar séu komnir of stutt í einhverjum námsgreinum til þess að hafa réttan undirbúning undir eitthvað. Heldur af því að það er of snemmt að taka ákvarðanir um framtíðarnámsval á svo ungum aldri. Það er betra að halda sem allra flestum á nokkurn veginn sama róli, þrátt fyrir mismunandi áhuga og hæfileika, vel fram á unglingsár.

En ekki fram yfir tvítugt. Þegar stúdentsnám framhaldsskólans er orðið að hálfgerðum grunnskóla – í þeim skilningi að það eigi að henta sem flestum áður en þeir taka neinar verulegar ákvarðanir um hvert þeir stefna – þá hentar það nemendum á hálfgerðum grunnskólaaldri. Ekki fullorðnu fólki.

IV
Þegar við sjáum bæði rök fyrir löngum og stuttum námstíma í framhaldsskólum, þá er af tæknilegum ástæðum rétt að velja styttri tímann. Það er nefnilega, eins og reynslan sýnir, miklu einfaldara fyrir nemendur að mæta sínum einstaklingsbundnu aðstæðum með því að taka námið hægar en skipulag segir til um en að taka það hraðar. Alveg sérstaklega í bekkjarskólum. Styttum bóknámsbrautirnar endilega niður í þrjú ár.

Þar með þurfum við ekki endilega að samþykkja markmið ráðherrans um „námslok á tilsettum tíma“. Því styttri sem viðmiðunarnámstíminn er, því fremur getum við tekið því með jafnaðargeði þó drjúgur hluti nemenda taki sér eitthvað lengri tíma til að klára, m.a. til þess að hafa meira svigrúm til þroskandi launavinnu.

V
Fyrir nemendur framhaldsskóla sem „finna sig ekki“ í náminu segir þú að oft séu „réttustu aðgerðirnar að nemendur taki sér hlé frá námi og endurheimti áhuga og námshvata við annað en venjulegt framhaldsskólanám.“ Og í slíku hléi hafi nemendur hér „betri tækifæri en annars staðar til að fara í gegnum þroskandi ferli á vinnumarkaði á táningsaldri.“

Þessu er ég hjartanlega sammála. Þó að góð sumarvinna geti í mörgum tilvikum gegnt þessu hlutverki, þá getur unglingur þurft lengri tíma til að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að hann geti náð tökum á raunverulegu starfi, staðið undir ábyrgð og tekið framförum. Að fara í einhver þar til gerð „úrræði“ (t.d. danskan lýðháskóla, eins og þú nefnir) getur sjálfsagt verið skárra en ekkert, en af því að úrræðin eru einmitt úrræði, þá gefa þau ekki tækifæri til að takast á við hlutverk úr raunveruleikanum.

En hvort sem það er bara eftir langa og góða sumarvinnu eða eftir lengri tíma á vinnumarkaði, þá kemur að því að unglingur byrjar aftur í skóla. Kannski búinn að vinna fyrir tekjum svo lengi að þurfa nú ekki rétt í bili að vinna mikið með skóla. Og þá getur verið gott að klára á sem fæstum árum, fá tækifæri til að sanna sig í því efni líka.

VI
Hér er að vísu ónefnt það sem mér finnst stærsta áhyggjuefnið varðandi unglinga sem „finna sig ekki“ í námi. Það er hvernig framhaldsskólinn getur verið nógu opinn og aðgengilegur fyrir langflesta nemendur án þess að vera svo beint framhald af grunnskólanum að nemandi, sem er orðinn því vanur að læra með hangandi hendi og án verulegs árangurs haldi næstum óhjákvæmilega áfram á sömu braut. Einhvern veginn þarf framhaldsskólinn strax frá upphafi að krefjast einbeitingar og framfara, en taka gildar framfarir á svo mörgum og ólíkum sviðum að þar eigi langflestir að finna eitthvað sem þeir geta einbeitt sér að og náð framförum í. Sannað sig þannig, fyrir sjálfum sér og öðrum, áður en þeir fara að ströggla aftur við dönsku og stafsetningu eða hvað annað sem þeir höfðu vanið sig á að ráða ekki við. Það er eitthvað svona sem þarf, ég veit bara ekkert hvernig.
__________
Heyrðu, bara kærar þakkir fyrir að vekja þessa umræðu.
Helgi Skúli

 

atlihardarSendandi: Atli V. Harðarson
Til: Helgi Skúli Kjartansson, Gestur Guðmundsson
CC: Starfsfólk menntavísindasviðs

Sæll Helgi Skúli og sæll Gestur og bestu þakkir fyrir skynsamleg skrif um málefni framhaldsskóla

Mig langar að bæta við nokkrum orðum. Í umræðu um hvað fólk hér á landi er lengi að ljúka framhaldsskóla ægir mörgu saman og það er mikið um alhæfingar sem ég held að standist ekki gagnrýna skoðun.

Gestur bendir réttilega á (í grein á bls. 23 í Fréttablaðinu 3. júlí 2014) að munurinn á skólagöngu ungmenna hér á landi og í Danmörku er mun minni en ætla mætti af yfirlýsingum þeirra sem hafa stór orð uppi um brottfallið hér á landi. Veruleikinn er sá (skv. Education at a Glance 2014, bls. 313) að hér á landi var fremur hátt hlutfall fólks á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2012 eða 88%. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 86% til 87% og meðaltalið fyrir OECD var 84%. Þessar nýjustu samanburðartölur um skólasókn benda því ekki til að íslensk ungmenni flýji framhaldsskólana í meira mæli en gerist og gengur í öðrum OECD löndum.

Ekki er nóg með að skólasókn hér sé með meira móti heldur var útskriftarhlutfall líka hátt árið 2012 eða 95% (Education at a Glance 2014, bls. 67). Á hinum Norðurlöndunum var það á bilinu 77% til 93% og meðaltalið fyrir OECD var 84%.

Hins vegar er það rétt sem menntamálaráðherra og fleiri hafa haldið fram að margir séu lengi á leið gegnum framhaldsskóla hér á landi. Árið 2012 var meðalaldur við brautskráningu úr framhaldsskóla hér 23 ár, en á milli 18 og 22 ár á hinum Norðurlöndunum. Meðaltalið fyrir OECD var 19 ár (Education at a Glance 2014, bls. 67).

Hverjar eru ástæðurnar fyrir þessari sérstöðu íslenska skólakerfisins, að nemendur eru að meðaltali 23 ára þegar þeir klára framhaldsskóla? Mín takmarkaða reynsla bendir til að ástæðurnar séu fleiri en ein og fleiri en tvær og þótt sumar þeirra séu áhyggjuefni séu sumar það alls ekki heldur þvert á móti. Hér ætla ég að telja nokkrar.

1. ástæða: Frelsi nemenda til að velja sér nám
Nemendur hér eru ekki flokkaðir eins stíft inn á brautir og víða annars staðar og fyrir vikið innrita sumir sig í erfiðara nám en þeir ráða við að ljúka á tilsettum tíma. Í mörgum OECD löndum eru nemendur hins vegar flokkaðir við 11 til 13 ára aldur og beint í nám sem „kerfið“ telur víst að þeir ráði við. Að sumir nemendur hér á landi hafi metnað til að fara í brattari brekkur en þair hlaupa upp á fullri ferð getur varla talist slæmt í sjálfu sér.

2. ástæða: Aðgengi fullorðinna að framhaldsskólum
Hér eru framhaldsskólar opnir öllum en í mörgum OECD löndum eru þeir aðeins opnir tilteknum aldurshópum. Þetta aðgengi fólks fram eftir aldri veldur nokkru um að margir fresta námi sem mundu varla gera það ef þeir þyrftu (eins og t.d. Norðmenn) að borga há skólagjöld ef þeir héldu áfram eftir að vissum aldri væri náð.

Í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi þar sem ég starfaði frá 1986 til 2014 hafa nemendur sem komnir eru yfir tvítugt oft verið um fjórðungur af hópnum, og ekki þarf að útskrifa marga fimmtuga til að hífa meðalaldurinn vel upp. Þetta þýðir ekki að unglingar í skólanum séu upp til hópa að gaufa meira en góðu hófi gegnir. Um árabil hefur nær helmingur sem lýkur bóknámsbrautum til stúdentsprófs á Akranesi gert það á átta önnum (sem er viðmiðunartími), nær fjórðungur á skemmri tíma (flestir af þeim á sjö önnum en nokkrir á fimm eða sex) og fjórðungur á lengri tíma, sumir miklu lengri. (Í sambandi við það sem Gestur sagði um nemendur sem hefja nám á Almennri braut er rétt að nefna að töluverður hluti þeirra lýkur stúdentsprófi á fjórum árum eftir grunnskóla, enda gengur nám á Almennri braut í mörgum tilvikum að fullu upp í nám á bóknámsbrautum, en nýtist síður á iðn- og starfsmenntabrautum.)

Að svo miklu leyti sem aðgengi fullorðinna að framhaldsskólum er ástæða fyrir háum meðalaldri þeirra sem útskrifast er hann ekki sérstakt áhyggjuefni. Af þessu leiðir ekki að það sé sjálfsagt mál að fullorðnir geti valsað inn og út úr skólum án þess að borga neitt fyrir það. Eigi að breyta því er það vegna þess að kerfið hefur gert of vel við fólk fremur en vegna þess að það sé gallað og ómögulegt eins og gjarna er látið að liggja þegar veifað er tölum um háan aldur útskriftarnema.

3. ástæða: Aðgengi ungmenna að vinnumarkaði
Eins og Gestur bendir á stundar stór hluti framhaldsskólanema vinnu með skóla. Sumir gera þetta af nauðsyn, aðrir til að kosta neyslu (svo sem kaup og rekstur bíla) sem tæpast getur talist nauðsynleg. Fyrir þessu er gömul hefð hér á landi. Frá því skipulegt skólahald fyrir aðra en örfáa embættismenn hófst hér undir lok nítjándu aldar hafa nemendur flakkað milli vinnu og skóla í meira mæli en t.d. í Danmörku. Hvort sem vinnan er nauðsyn eða ekki er meginástæðan fyrir því að íslenskir unglingar vinna meira en jafnaldrar þeirra í flestum Evrópulöndum væntanlega sú að þeir geta fengið vinnu og því er ekki illa tekið, eða litið á það sem hneysu fyrir fjölskylduna, þó þeir geri hlé á námi til að vinna.

Vert er að nefna í þessu sambandi að sumir nemendur verða að fá vinnu til að ljúka námi hvort sem þá vantar peninga eða ekki. Þetta gildir um flesta iðnnema. Við getum tekið húsasmíði sem dæmi. Hún er skilgreind sem fimm anna nám í skóla. Til að mega þreyta sveinspróf dugar þó ekki að klára alla áfanga á brautinni. Það þarf líka að vinna í 72 vikur undir stjórn húsasmíðameisara. Hver nemandi verður sjálfur að finna sér vinnu. Við það er miðað að nemandi byrji á að klára fjórar annir í skóla, vinni svo 72 vikur, fari þá aftur í skóla og klári fimmtu önnina. Dæmigerður námsferill nemanda í húsasmíði er dálitið öðru vísi (að minnsta kosti á Akranesi). Hann byrjar gjarna á almennri braut og uppgötvar svo (t.d. eftir að hafa fengið sumarstarf í byggingavinnu) að það sé heppilegt að skipta í húsasmíði. Hann byrjar kannski ekki í iðnnáminu strax að loknu fyrsta sumarleyfi í framhaldsskóla heldur vinnur allan veturinn. Eftir það innritast hann í húsasmíðina – klárar fjórar annir þar, allt nema einn dönskuáfanga sem hann fellur í. Næst er að fá vinnu undir stjórn meistara. Eftir eitt og hálft ár biður meistarinn hann að vera aðeins lengur – það sé mikið að gera – nemandinn innritast því ekki á fimmtu önnina fyrr en tveim árum eftir að hann lauk þeirri fjórðu. Hann er nú orðinn vanur því að vera í fullri vinnu og hafa rúm auraráð – klárar því þetta einnar annars nám sem eftir var á tveim önnum með fullri vinnu. Nú eru liðin sjö ár frá því hann lauk grunnskóla en viðmiðunarlegnd námsins er tvö og hálft ár í skóla en eitt og hálft ár á vinnumarkaði, samtals fjögur ár. Hann fer þó ekki í sveinsprófið alveg strax því þessi eini dönskuáfangi er eftir. Honum er lokið í fjarnámi á einni önn. Eftir það skráir smiðurinn okkar sig í sveinspróf og þreytir það á vormisseri, næstum átta árum eftir að hann lauk tíunda bekk, orðinn 23 eða 24 ára gamall.

Skólaganga þessa manns var vandræðalaus. Hann beið ekkert skipbrot. En hún tók tímann sinn. Ef hann hefði verið í Danmörku eða Þýskalandi hefði honum trúlega verið stýrt í gegnum námið á skemmri tíma, m.a. vegna þess að þar hefði vinnustaðanámið verið tekið með heimsóknum í fyrirtæki á skólatíma, en ekki með því að ráða sig í fulla vinnu og ílendast svo í henni lengur en til stóð.

Vel má vera að hér ætti að huga að styttingu á vinnustaðahluta iðnnáms og flýta þannig fyrir að menn fái réttindi og hærri laun. Það má líka vel vera rétt að stytta skólagöngu bæði í verknámi og bóknámi og flýta þannig fyrir brautskráningu. En það eitt að framhaldsskólanemendur kynnist launavinnu er tæpast slæmt. Mér er nær að halda (eins og Helgi Skúli) að það sé gott.

Ástæðurnar fyrir því að viðhalda kerfi sem hvetur nemendur til þátttöku í atvinnulífi eru að mínu viti að minnsta kosti þrenns konar: 1) Ungmenni þroskast og menntast af að vinna; 2) Unglingar sem vinna með skóla kynnast samfélagi sínu, fá meðal annars innsýn í líf annarra stétta en þeir munu tilheyra; 3) Kynni af vinnu á unglingsárum stuðlar að atvinnuþátttöku og dregur úr hættu á atvinnuleysi síðar á ævinni.

Ég hef engin gögn til að styðja þetta þriðja en mér finnst trúlegt að ef fólk lýkur námi áður en það stígur sín fyrstu spor á vinnumarkaði verði þau spor þung fyrir suma. Mikið atvinnuleysi meðal fólks sem hefur nýlokið námi í sumum Evrópulöndum er að einhverju leyti út af því að hagkerfin eru föst í hjólförum – en, fjandinn hafi það, ef þetta fólk hefði upp til hópa vanist á vinnu frá 15 ára aldri mundi það frekar búa sér til störf og ráða hvert annað en sitja auðum höndum.

4. ástæða: Vandamál og erfiðleikar
Ég hef nú hlaupið á hundavaði yfir þrjár ástæður þess að margir útskrifast seint og reynt að skýra hvers vegna þessar ástæður eru ekki áhyggjuefni. En vissulega eru til ástæður sem við eigum að hafa áhyggjur af og breyta: Það er til dæmis nokkuð um að nemendur hætti í skóla vegna þeir eru lagðir í einelti; Sumir gefast upp vegna þess að þeir glíma við námserfiðleika og fá of litla hjálp; Stórir hópar innflytjenda fá enga móðurmálskennslu og takmarkaða möguleika á að nýta hæfileika sína;

Nokkuð margir detta út úr skóla vegna heilbrigðisvanda (og þar tel ég fíkniefnavanda með).

Mín takmarkaða reynsla bendir til að reynandi sé að fækka þeim sem gefast upp í skóla vegna heilbrigðisvanda með skólahjúkrun og auknu samstarfi milli skóla- og heilbrigðiskerfis. Það hlýtur líka að vera tilraunarinnar virði að bjóða a.m.k. fjölmennustu hópum innflytjenda upp á móðurmálskennslu. Allt sem gert er til að draga úr brottfalli og töfum á námslokum af þessari fjórðu ástæðu er af hinu góða. En ég held að menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir hefja stórmiklar aðgerðir gegn ástæðunum sem hér voru taldar númer eitt, tvö og þrjú.

Bestu kveðjur
Atli