Samspil 2015 fær góðar undirtektir

IUtspili

Áhugasamir þátttakendur í Útspili.

Á þriðjudag, 5. maí, mættu um 30 kennarar á tíunda og síðasta Útspilið sem haldið verður að sinni í tengslum við Samspil 2015 – átak Menntamiðju um notkun upplýsingatækni í námi og kennslu. Þar með hafa rúmlega 300 kennarar um allt land tekið þátt í Útspils námskeiði síðan átakið hófst í febrúar á þessu ári. En Útspilið er aðeins upphafið á árs löngu fræðsluátaki. Fræðslan færist nú að mestu yfir á netið þar sem þátttakendur munu nota samfélagsmiðla til að byggja sameiginlega upp öflugt og kvikt þekkingarsamfélag sem mun nýtast öllum kennurum landsins.

Markmið Samspils 2015 er að efla hæfni og færni kennara til að nýta sér upplýsingatækni í námi og kennslu. Fræðslan tekur sérstaklega mið af þeim öru tæknibreytingum sem eru að eiga sér stað í kringum okkur í dag. Lögð er áhersla á að þátttakendur verði meðvitaðir um tækniþróun og vinni saman að því að greina tækifæri og hindranir sem felast í tækninýjungum þegar þeirra verður vart.

Útspilið er ætlað að setja tóninn fyrir framhald átaksins. Þátttakendur fengu því að kynnast stöðu tækniþróunar, framtíðarhorfur, áhrif tæknþróunnar á nám og kennslu og notkun samfélagsmiðla til að styðja við og efla starfssamfélög þar sem jafningjar deila eigin reynslu og þekkingu. Inn í þetta fléttist svo hagnýt fræðsla um tiltekin öpp og tæki sem hægt er að nýta í nám og kennslu núþegar.

IUtspili2Þátttakendur í Samspili 2015 eru misvel að sér í tækni, allt frá því að vera á byrjunarreit til þess að vera álitnir leiðtogar í sínu nærsamfélagi og jafnvel víðar. Mikilvægt þykir fyrir framhald fræðsluátaksins að hafa einmitt þessa flóru enda felst styrkur hvers samfélags í fjölbreytileikanum. Það er því áskorun fyrir okkur sem skipuleggjum fræðsluna að tryggja að við séum að höfða jafnt til reynsluboltana sem og byrjendurna. Viðbrögð þátttakenda eftir Útspilin hafa verið mjög jákvæð og gefa til kynna að við séum á réttri leið. Einn þátttakandi sem skrifaði um þátttöku sína á bloggið sitt veltir fyrir sér hvort jafnvel sé „vitundavakning” í vændum um upplýsingatækni í skólastarfi. Annar þátttakandi sem telur sig vera mjög vel að sér í tæknimálum upplifði Útspilið sem, „eitt stórt lærdómsferli frá upphafi til enda þar sem ég kynntist nýjum hugmyndum og lausnum”.

Þeir sem hafa áhuga geta fylgst með Samspilinu á samfélagsmiðlum, t.d. undir umræðumerkinu #samspil2015 á Twitter og á vef Samspils átaksins þar sem hægt er að sjá upptökur af vefmálstofum og fleira.