Samspil 2018 – fræðsluátak um starfsþróun í þágu menntunar fyrir alla

Í nóvember, 2018 hófst nýtt fræðsluátak Menntamiðju sem hefur hlotið heitið Samspil 2018. Um er að ræða fræðsluátak sem er ókeypis fyrir alla sem starfa við menntun (starfsfólk skóla, frístundaheimila, tónlistarskóla, safnræðslu og fleira). Samspil 2018 er starfsþróunarátak þar sem blandast saman fræðsla, samstarf og samnýting þekkingar og reynslu þeirra sem starfa í skólum í skemmtilegu og aðgengilegu námsumhverfi. Fræðsla fer að mestu fram á netinu og þátttakendur fá að kynnast því hvernig samfélagsmiðlar og tengslanet stuðla að uppbyggilegri og áframhaldandi starfsþróun. Skráning er enn opin og er hægt að skrá sig hér: http://samspil2018.menntamidja.is/skraning/

Lesa má meira um Samspil 2018 hér: http://samspil2018.menntamidja.is/hvad-er-samspil-2018/

Fræðslufundir sem þegar hafa farið fram eru aðgengilegir öllum á vef Samspils 2018.

Samspil 2018 er stutt af Samstarfsráði um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og Stýrihópi Menntunar fyrir alla.
Samfélagsleg nýsköpun í skólastarfi

Í vetur sóttu fimm nemar af Menntavísindasviði Háskóla Íslands alþjóðlegt námskeið um samfélagslega nýsköpun sem haldið var í Varsjá í Póllandi. Námskeiðið er hluti af Erasmus+ verkefni sem Menntamiðja tekur þátt í. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að aukinni samtengingu háskóla og samfélags með innleiðingu samfélagslegrar nýsköpunar í fræðslu og starfsemi.

Á námskeiðinu fengu nemendur að kynnast fræðilegum og praktískum hliðum á samfélaglegri nýsköpun og sérstaklega hvernig megi tengja hana við skólastarf. Kennarar á námskeiðinu voru sérfræðingar á ýmsum sviðum sem tengjast nýsköpun og menntun frá þeim aðilum sem taka þátt í Erasmus+ verkefninu sem eru: Collegium Civitas í Varsjá, University of Northampton í Englandi, Ashoka Poland og Menntamiðja Menntavísindasviðs HÍ. Þátttakendur voru nemendur Menntavísindasviðs HÍ, Collegium Civitas og University of Northampton.

Hvað er samfélagsleg nýsköpun?
Helsti munurinn á hefðbundinni og samfélagslegri nýsköpun er að sú síðari felur í sér áform um að bæta umhverfið eða samfélagið með einhverjum hætti. Oft er samfélagsleg nýsköpun skilgreind þannig, að verðmætin sem skapast með nýsköpuninni renna fyrst og fremst til samfélagsins frekar en til tiltekinna einstaklinga. Það er að segja að samfélagsleg nýsköpun miðar að því að skapa nýjungar sem hjálpa til við að takast á við áskoranir samfélagsins – eða eins og segir í þessu myndskeiði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, samfélagsleg nýsköpun er „snjallar hugmyndir sem auka velferð og lífsgæði“.

Dæmi um samfélagslega nýsköpun eru mörg og fjölbreytt:

 • Víða í Evrópskum borgum hafa verið stofnuð fyrirtæki (sjá Goodwill CIC í Northampton, UK sem dæmi) sem ráða sérstaklega til sín fólk sem hefur átt erfitt uppdráttar, t.d. heimilislausa eða afbrotafólk sem hefur lokið afplánun. Fólkið fær þannig tækifæri til að koma undir sér fótum og hljóta þjálfun sem styrkir stöðu þess á vinnumarkaðnum og dregur úr líkum á að það endi aftur á götunni eða brjóti af sér aftur.
 • Í borg einni í Austur-Evrópu var hópur ungmenna sem þreyttist á því að umferðareyjar borgarinnar væru vanhirtar og þaktar arfa. Hann tók sig til og hóf að bjóða til sölu á bensínstöðum borgarinnar ódýra pakka af villiblómafræjum sem ökumenn kasta út um gluggan þegar þeir keyra framhjá umferðareyjunum og fegra þannig umhverfi sitt.
 • Carbon Recycling International er íslenskt fyrirtæki sem endurvinnur mengandi koltvíoxíð til að búa til eldsneyti. Þannig stuðlar fyrirtækið að því að eldsneytisþörf sé mætt en dregur um leið úr mengun.
 • Segja má að fræðslu- og skólastarf á Íslandi hafi að miklu leyti mótast af samfélagslegri nýsköpun óeigingjarna og framsækinna frumkvöðla sem höfðu það að markmiði að bæta hag þjóðarinnar.

Samfélagsleg nýsköpun í skólastarfi
Í dag er lögð töluverð áhersla á að efla tengsl skóla, atvinnulífs og samfélags á öllum skólastigum. Þar getur samfélagsleg nýsköpun gengt mikilvægu hlutverki sem fyrirmynd fyrir þróun verkefnamiðaðs náms í takt við þarfir samfélagsins. Samfélagsleg nýsköpun byggist fyrst og fremst á þrennu. Í fyrsta lagi að viðkomandi hafi góð tengsl við nærsamfélagið til að geta áttað sig á hvar áskoranir liggja. Í öðru lagi þarf viðkomandi að geta sett sig í fótspor þeirra sem áskoranirnar ná til. Í þriðja lagi þarf viðkomandi að afla sér og nýta margvíslega þekkingu til að móta nýjar leiðir til að takast á við áskoranir í takt við samfélagslega þróun.

Unnið hefur verið að því að samþætta samfélagslega nýsköpun í skólastarf víða og á öllum skólastigum. Sem dæmi má nefna:

 • University of Northampton – Samfélagsleg nýsköpun hefur áhrif á alla stefnumótun, kennslu og rannsóknarstarf háskólans.
 • Social Innovation Meets School – Þýskt verkefni sem miðar að því að efla nýsköpunarmennt í skólum með áherslu á samfélagslega nýsköpun. Aðilar verkefnisins hafa unnið með skólastjórnendum og kennurum í þýskum skólum og erlendum.
 • Digital Human Library – DHL er kanadískt verkefni sem hefur m.a. unnið með fyrirtækjum, stofnunum og skólum til að þróa áhugaverð skapandi verkefni fyrir skólakrakka. Verkefnin eru hönnuð til að hvetja skólakrakka til að kynna sér nærsamfélag og umhverfi sitt og hugsa um leiðir til að takast á við áskóranir.

Í samfélagslegri nýsköpun felast áhugaverðar leiðir til að tengja skólastarf við samfélagið og hvetja nemendur til að huga að því hvernig þeir geta bætt umhverfi sitt. Samfélagsleg nýsköpun fellur líka vel að nútíma áherslum í skólastarfi og getur stutt aukin tengsl skóla og samfélags, verkefnamiðað nám, skapandi skólastarf, lausnamiðað nám og margt fleira.

Viltu læra meira um samfélagslega nýsköpun?
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér betur samfélagslega nýsköpun og hvernig hún getur tengst skólastarfi munu bráðum hafa kost á að taka þátt í netnámskeiðum sem verið er að þróa í tengslum við verkefni Menntamiðju. Námskeiðin verða kynnt á vef verkefnisins og Menntamiðju þegar þau eru aðgengileg.
Skólaþræðir – nýtt vefrit um skólaþróun

skolath_scrshotNú hefur bæst í vef-flóru Menntamiðju vefurinn Skólaþræðir sem var opnað fyrir í gær. Vefritið er gefið út af Skólaþróun – samtaka áhugafólks um skólaþróun og unnið í samstarfi við Menntamiðju. Í Skólaþráðum eru birtar greinar um þróunarstarf og annað áhugavert sem er að gerast í skólum landsins.

Í fyrstu útgáfu Skólaþráða eru sjö greinar sem fjalla um skólastarf á öllum skólastigum. Má t.d. nefna áhugaverðar greinar um heimspekikennslu í skólum, um nýjar bækur tengdar námi og kennslu, kennslufræði og margt fleira.
Samspil 2015 fær góðar undirtektir

IUtspili

Áhugasamir þátttakendur í Útspili.

Á þriðjudag, 5. maí, mættu um 30 kennarar á tíunda og síðasta Útspilið sem haldið verður að sinni í tengslum við Samspil 2015 – átak Menntamiðju um notkun upplýsingatækni í námi og kennslu. Þar með hafa rúmlega 300 kennarar um allt land tekið þátt í Útspils námskeiði síðan átakið hófst í febrúar á þessu ári. En Útspilið er aðeins upphafið á árs löngu fræðsluátaki. Fræðslan færist nú að mestu yfir á netið þar sem þátttakendur munu nota samfélagsmiðla til að byggja sameiginlega upp öflugt og kvikt þekkingarsamfélag sem mun nýtast öllum kennurum landsins.

Markmið Samspils 2015 er að efla hæfni og færni kennara til að nýta sér upplýsingatækni í námi og kennslu. Fræðslan tekur sérstaklega mið af þeim öru tæknibreytingum sem eru að eiga sér stað í kringum okkur í dag. Lögð er áhersla á að þátttakendur verði meðvitaðir um tækniþróun og vinni saman að því að greina tækifæri og hindranir sem felast í tækninýjungum þegar þeirra verður vart.

Útspilið er ætlað að setja tóninn fyrir framhald átaksins. Þátttakendur fengu því að kynnast stöðu tækniþróunar, framtíðarhorfur, áhrif tæknþróunnar á nám og kennslu og notkun samfélagsmiðla til að styðja við og efla starfssamfélög þar sem jafningjar deila eigin reynslu og þekkingu. Inn í þetta fléttist svo hagnýt fræðsla um tiltekin öpp og tæki sem hægt er að nýta í nám og kennslu núþegar.

IUtspili2Þátttakendur í Samspili 2015 eru misvel að sér í tækni, allt frá því að vera á byrjunarreit til þess að vera álitnir leiðtogar í sínu nærsamfélagi og jafnvel víðar. Mikilvægt þykir fyrir framhald fræðsluátaksins að hafa einmitt þessa flóru enda felst styrkur hvers samfélags í fjölbreytileikanum. Það er því áskorun fyrir okkur sem skipuleggjum fræðsluna að tryggja að við séum að höfða jafnt til reynsluboltana sem og byrjendurna. Viðbrögð þátttakenda eftir Útspilin hafa verið mjög jákvæð og gefa til kynna að við séum á réttri leið. Einn þátttakandi sem skrifaði um þátttöku sína á bloggið sitt veltir fyrir sér hvort jafnvel sé „vitundavakning” í vændum um upplýsingatækni í skólastarfi. Annar þátttakandi sem telur sig vera mjög vel að sér í tæknimálum upplifði Útspilið sem, „eitt stórt lærdómsferli frá upphafi til enda þar sem ég kynntist nýjum hugmyndum og lausnum”.

Þeir sem hafa áhuga geta fylgst með Samspilinu á samfélagsmiðlum, t.d. undir umræðumerkinu #samspil2015 á Twitter og á vef Samspils átaksins þar sem hægt er að sjá upptökur af vefmálstofum og fleira.
„Af hverju fékk ég sjö?“ – Upptaka frá Kennslumálaþingi HÍ 2015

kennslum_thingYfirskrift Kennslumálaþings HÍ, sem haldið var 27. febrúar, var ,,Af hverju fékk ég sjö?“. Umfjöllunarefni á þinginu var námsmat og endurgjöf í háskólanámi. Meðal frummælenda voru Kate Little frá heildarsamtökum stúdentafélaga á Bretlandseyjum, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ og Börkur Hansen formaður kennslumálanefndar háskólaráðs og prófessor á Menntavísindasviði. Upptöku frá þinginu má horfa hér fyrir neðan.

[youtube=https://www.youtube.com/watch?v=GUnfSQAF68k]
#Menntaspjall um teymiskennslu á Twitter

TeymiskennslaSunnudaginn 22.febrúar, kl. 11-12, verður #menntaspjall um ‘Tækifæri og hindranir Teymiskennslu’. Gestastjórnandi er Jóhanna Þorvaldsdóttir, kennari í teymiskennsluskólanum Árskóla á Sauðárkróki.

Teymiskennsla hefur notið vaxandi vinsælda í íslenskum skólum undanfarin ár en þar deila tveir eða fleiri kennarar ábyrgð fyrir hópi nemenda og sinna kennslu. Fjölmargir íslenskir skólar hafa innleitt teymiskennslu en leiðirnar eru margar og ólíkar. Við viljum heyra ykkar upplifun og tilfinningu fyrir slíkri vinnu og hvernig hún hefur áhrif á nám og kennslu í grunnskólum landsins.

Spurningarnar sem verða lagðar til grundvallar eru:

 1. Hvað einkennir gott kennarateymi?
 2. Er teymiskennsla hindrun eða tækifæri fyrir kennara sem vill reyna nýjar kennsluaðferðir?
 3. Hvað ætti stjórnandi að hafa í huga þegar hann setur saman kennarateymi?
 4. Hvað græða nemendur á teymiskennslu?
 5. Hvernig má nýta teymiskennslu til að auðvelda einstaklingsmiðað nám?#menntaspjall um náttúrufræðimenntun 25. janúar, kl. 11-12

 

#menntaspjall - Umræður skólafólks á Twitter annan hvern sunnudag.

#menntaspjall – Umræður skólafólks á Twitter annan hvern sunnudag.

Undanfarin misseri hefur verið töluverð umræða um mikilvægi náttúrufræðimenntunar á öllum skólastigum, enda eru þær undirstaða allrar tækniþróunnar. Í #menntaspjall á Twitter á sunnudaginn, 25. janúar, kl. 11-12 verður rætt um leiðir til að efla náttúrufræðimenntun í íslenskum skólum. Gestastjórnendur eru Ester Ýr Jónsdóttir (@Ester_Yr) og Birgir U. Ásgeirsson (@birgirua), verkefnisstjórar NaNO verkefnisins, sem snýr að eflingu raungreina í grunn- og framhaldsskólum.

Spurt verður:
1. Hver ætti að vera tilgangur og markmið náttúrufræðimenntunar á Íslandi í dag?
2. Hvernig ætti að haga kennslu í nátttúrufræði og raungreinum til að mæta þeim markmiðum?
3. Hverjir eru styrkleikar náttúrufræði-/raunvísindakennslu núna?
4. Hverjar eru helstu áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í náttúrufræðikennslu?
5. Hvað getum við sem kennarar gert til að efla náttúrufræðimenntun?
6. Hvert er mikilvægi símenntunar náttúrufræði/raunvísinda-kennara og hvernig viljið þið að símenntun sé háttað?

Hvernig get ég tekið þátt í #menntaspjall á Twitter?

[vimeo http://vimeo.com/83581540]

 
Alþjóðleg ráðstefna um vendinám

flip_logoÍ tengslum við Erasmus verkefnið FLIP – Flipped Learning in Praxis, sem MenntaMiðja er aðili að, verða haldndar alþjóðleg ráðstefna og vinnubúðir um vendinám 14. apríl 2015.

Sérstakir gestir ráðstefnunnar verða Jonathan Bergmann og Aaron Sams, forsprakkar vendinámsins í Bandaríkjunum og höfundar bókarinnar „Flip Your Classroom: Reach Every Student in Every Class Every Day“. Í kjölfar ráðstefnunnar gefst þátttakendum kostur á að sækja vinnubúðir þar sem þeir geta prófað sig áfram í tæknimálum og kennsluháttum, ásamt því hvernig þeir eiga að undirbúa námsefni og kennslustundir í vendinámi. Markmiðið er að gefa þátttakendum innsýn í hvernig hægt er að innleiða vendinám á mismunandi skólastigum, hvort heldur sem er í stökum áföngum eða í öllu skólastarfinu.
Frekari upplýsingar eru á vef Keilis, sem stýrir Erasmus verkefninu og sér um skipulag ráðstefnunar.Samfélagsmiðlar í námi og kennslu

Teaching-Crowds-cover-resizedFyrir stuttu birtist hér á MenntaMiðju grein þar sem var fjallað um samfélagsmiðla og notkun þeirra í skólastarfi. Í framhaldi af því og til að hvetja enn frekar til umræðu um hlutverk og möguleika samfélagsmiðla í skólastarfi er vert að benda á nýútkomna bók Jon Dron og Terry Anderson, Teaching Crowds: Learning and Social Media. Rafræna útgáfa bókarinnar er hægt að niðurhala ókeypis hér.
#menntaspjall um eTwinning

Á sunnudaginn, 2. nóvember, kl. 11-12 fer fram #menntaspjall á örbloggvefnum Twitter um eTwinning áætlun Evrópusambandsins. eTwinning áætlunin styður rafrænt alþjóðlegt samstarf skóla í Evrópu. Íslenskt skólafólk hefur verið sérlega duglegt að taka þátt í eTwinning áætluninni og eru í dag skráð rúmlega 70 virk verkefni á Íslandi og eru rúmlega 300 skólar um allt land skráðir þátttakendur í áætluninni.

Gestastjórnandi að þessu sinni er Kristján Bjarni Halldórsson, eTwinning fulltrúi á Norðurlandi vestra og kennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Spurningarnar sem verða lagðar fyrir þátttakendur eru:
1. Hvaða eTwinning verkefni hafa verið/eru í gangi í skólum ykkar?
2. Hversu vel fellur eTwinning að nýrri námskrá?
3. Hver er ávinningur af eTwinning fyrir kennara?
4. Hver er ávinningur af eTwinning fyrir nemendur?
5. Hverjar eru helstu hindranir fyrir þátttöku í eTwinning?
6. Hvernig mætti stuðla að betri miðlun og nýtingu þekkingar sem skapast af eTwinning?

Sjá frekari upplýsingar um eTwinning á UT-torgi.
Sjá frekari upplýsingar um #menntaspjallið á vef Ingva Hrannars Ómarssonar.