Starfsþróun háskólanna

Viðbótarnám, stök námskeið og viðburðir

Háskólar landsins taka með ýmsum hætti þátt í starfsþróun fagstétta sem þeir mennta í skóla- og frístundasamfélaginu. Starfandi kennarar og annað fagfólk sækir sér viðbótarmenntun, ýmist með stökum námskeiðum eða stuttu og löngu meistaranámi, sérstök námskeið eru þróuð í samstarfi við sveitarfélög og háskólakennarar koma að námskeiðahaldi og stuðningi við ýmis starfsþróunarverkefni. Ráðstefnur og viðburðir á vegum háskólanna eru vel sóttir af fyrrum nemendum háskólanna á sviði menntavísinda.

Úrval námskeiða

Menntafléttan

Menntafléttan – námssamfélög í skóla- og frístundastarfi er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennarasambands Íslands um hagnýt námskeið af fjölbreyttum toga, kennd með hugmyndafræði leiðtoganáms. Námskeiðin eru á sviði stærðfræði, náttúrufræði, íslensku og læsi, auk þverfaglegra námskeiða sem snúa að samþættingu, leiðsagnarnámi, vellíðan, frístundastarfi og forystu í menntakerfinu.