Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, þeirra námssamfélög og teymi í starfi með yngstu börnum leikskólans. Fjallað verður um upphaf leikskólagöngu þar sem samskipti og tengsl leikskólakennara og fjölbreytts hóps foreldra og barna eru í brennidepli. Einnig verður rýnt í sérstöðu yngstu barnanna; tjáningarmáta, leik og námsleiðir. Lögð verður áhersla á hlutverk kennarans og starfshætti sem byggist á umhyggju, samskiptum, skráningum og skapandi starfi.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni.
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í leikskólum.
- skilið í hverju upphaf leikskólagöngu felst, fyrir börn, foreldra og leikskólakennara.
- þekkt helstu tjáningarmáta ungra barna og hvernig merkingarsköpun þeirra fer fram í gegnum líkamlega tjáningu.
- þekkt mikilvægi jafningjatengsla fyrir yngstu börnin og haft kunnáttu til að styðja þátttöku þeirra í leik.
- skilið mikilvægi skráninga í leikskólastarfi og sérstaklega í skapandi starfi með yngstu börnunum þar sem áherslan er á ferlið og upplifun fremur en útkomu.
- velt fyrir sér valdeflingu yngstu barnanna og hvernig hún gæti litið út í daglegu starfi.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er fyrir leikskólakennara og annað starfsfólk sem starfar með yngstu börnunum í leikskólum. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum leikskóla, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna leikskóla. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í leikskóla þar sem námssamfélög blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2023–2024 á ZOOM. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í leikskólum þátttakenda í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir – og teymin þeirra geta fléttað saman við daglegt leikskólastarf.
Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
2023
Miðvikudagur, 27. september kl.13.00–16.00
Miðvikudagur, 29. nóvember kl. 13.00–16.00
2024
Miðvikudagur, 24. janúar kl. 13.00–16.00
Miðvikudagur, 13. mars kl. 13.00–16.00
Miðvikudagur, 17. apríl kl. 13.00–16.00
Miðvikudagur, 12. júní kl. 13.00–16.00
Umsjón og kennsla
Hrönn Pálmadóttir, dósent og Bryndís Gunnarsdóttir, aðjúnkt og doktorsnemi, báðar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk þeirra koma að kennslu námskeiðsins leikskólakennararnir Hugrún Helgadóttir, Jötunheimum, Anna Gréta Guðmundsdóttir, aðjunkt og verkefnastjóri við Menntavísindasvið HÍ og Agnes Gústavsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri Aðalþingi.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er sóttur í smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.