„Let the dataset change your mindset“.
Í hagtölum og opinberum gagnagrunnum er mikið magn tölulegra upplýsinga um samfélagið sem nýta má í skólastarfi. Miðlun og notkun hagtalna og hlutlausra tölfræðiupplýsinga stuðla að upplýstri þjóðfélagsumræðu, gagnrýnni hugsun og eru grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana. Hagtölur, gögn og gagnagrunnar eru vannýtt verkfæri í námi og kennslu, verkfæri sem bjóða upp á fjölbreytta nálgun í ólíkum faggreinum.
Á námskeiðinu verður fjallað um helstu hugtök sem tengjast nýtingu gagna og gagnaúrvinnslu, möguleika við nýtingu á opinberum gögnum og helstu gagnagrunna. Viðfangsefni námskeiðsins snerta kennslu í samfélagsfræði, félagsgreinum, stærðfræði, tölfræði, hagfræði sem og náttúrufræðigreinum. Þátttakendur kynnast verkfærum, nálgun og leiðum til að þróa eigin kennslu með notkun opinberra sem og alþjóðlegra hagtalna og gagnagrunna.
Námskeiðið er haldið fyrir tilstuðlan styrks frá Eurostat – evrópsku hagstofunni og Hagstofu Íslands sem einnig skipuleggur keppnina Greindu betur fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskólastigið. Námskeiðið er opið öllum kennurum, óháð því hvort nemendur þeirra hafi tekið þátt í keppninni. Vert er að vekja athygli á sigurmyndbandi Ólafar Maríu Steinarsdóttur, nemanda í Tækniskólanum, sem hreppti 2. sætið í keppninni vorið 2022.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum um viðfangsefni námskeiðsins.
- metið ólík gögn og gagnagrunna og ýtt undir forvitni nemenda um notkun þeirra.
- nýtt tölfræði og opinberar hagtölur fyrir nýsköpun í námi og kennslu.
- beitt fjölbreyttum og hagnýtum verkfærum til að efla tjáningu, miðlun og upplýsingalæsi nemenda.
- skoðað með gagnrýnu hugarfari með nemendum sínum hvað hlutverki gögn þjóna á ólíkum sviðum samfélagsins.
- þekkt og fjallað um gæði rannsókna og hvernig má nýta – og misnota rannsóknarniðurstöður.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er fyrir grunnskólakennara í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólakennara í samfélagsgreinum, náttúruvísindum, félagsgreinum, stærðfræði, hagfræði og tölfræði. Námskeiðið snertir á lykilhæfniþáttum á borð við tjáningu og miðlun, nýtingu miðla og upplýsinga og gagnrýnni hugsun.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex rafrænum lotum á heimasíðu Menntafléttu á þeim tímum sem hentar þátttakendum sjálfum. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þátttakenda í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur.
Umsjón og kennsla
Anna Hera Björnsdóttir, stærðfræðikennari í Versló, Björgvin Ívar Guðbrandsson, kennari í Langholtsskóla og verkefnastjóri á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Karen Ástu- og Kristjánsdóttir, kennari í kynjafræði og félagsfræði í MH og Víðir Þórarinsson, stærðfræðikennari í Kársnesskóla.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.
Staðreyndasemi (e. Factfulness): Hin stressminnkandi venja að tileinka sér að hafa einungis þær skoðanir sem hægt er að rökstyðja með áreiðanlegum staðreyndum.
Hans RoslingPrófessor í hnattrænni lýðheilsufræði og ástríðumaður um gögn
Í hnotskurn
- Lotur 0
- Quizzes 0
- Lotur: 6x3 klst.
- Hefst: All levels
- Gjöld: 0
- Gjöld: Mismunandi