Höfum áhrif: Menntun til sjálfbærni á unglingastigi

Free
product_176

Markmið námskeiðsins er að styrkja leiðtoga á unglingastigi við að leiða hóp samkennara sinna í  námssamfélagi með samræðum um menntun til sjálfbærni. Lögð verður áhersla á að styðja þátttakendur í að beita gagnrýnum og umbreytandi kennsluháttum sem verka bæði valdeflandi á þá og nemendur þeirra. Leiðarljós námskeiðsins eru að þátttakendur geti leitt þverfagleg verkefni sem taka á áskorunum samtímans og framtíðarinnar. Þátttakendur kynnast ólíkum hliðum sjálfbærni þar sem lögð verður áhersla á skapandi grenndarnám, borgaravitund og hagnýta nálgun sem þátttakendur geta nýtt beint í eigið starf. Þátttakendur munu m.a. vinna saman í teymum að hugmyndavinnu og gerð kennsluáætlana með verkfærum sem virkja samstarfsfólk og nemendur.

Við lok námskeiðs geta þátttakendur

 • Gegnt hlutverki leiðtoga og leitt námssamfélög jafningja í eigin skóla með samtali, endurgjöf og ígrundun um breytta starfshætti
 • Undirbúið þverfagleg verkefni á sviði sjálfbærni
 • Skipulagt skapandi kennslu sem tekur á álitamálum líðandi stundar
 • Beitt valdeflandi nemendamiðuðum kennsluaðferðum sem leiða til getu til aðgerða
 • Rætt og miðlað ólíkum hliðum sjálfbærni og möguleikum umbreytandi náms
 • Ígrundað skipulag, kennslu og framfarir skólasamfélagsins á sviði sjálfbærni

Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?

Námskeiðið er fyrir kennara á unglingastigi grunnskóla sem kenna ólíkar námsgreinar í 7. –10. bekk. List- og verkgreinakennarar eru sérstaklega hvattir til þátttöku. Mælt er með því að hver skóli hafi tvo leiðtoga á námskeiðinu en það er þó ekki skilyrði fyrir þátttöku. Mikilvægt er að þátttakendur séu mótttækilegir fyrir því að þróa eða prófa þverfagleg verkefni með nemendum sínum á námskeiðstímabilinu.

Stjórnendur skóla skrá leiðtoga á námskeið. Með skráningu sammælast stjórnendur og þátttakendur um að styðja við þróun námssamfélaga, með nauðsynlegu svigrúmi til stefnumóta og samtals á hverjum stað með hópi samstarfsfólks.

Skráning hefst í fyrstu viku maímánaðar 2021. Þá liggja fyrir nákvæmar dag- og tímasetningar lotanna.

Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?

Námskeiðið fer fram rafrænt í 6 lotum, 3 klukkustundir að lengd, skólaárið 2021-2022. Skoðað verður með þátttakendum hvort tækifæri gefist á staðlotum. Á milli lota vinna þátttakendur með hagnýtar kveikjur námskeiðsins í hópi samstarfsfólks og flétta þannig viðfangsefnin við daglegt starf. Í upphafi hverrar lotu er farið yfir reynslu leiðtoga af starfinu í skólunum. 

Reikna má með því að leiðtogarnir verji um 50 klukkustundum í heildina yfir veturinn vegna námskeiðsins, í bæði námslotur sem og stuðning við þróun námssamfélaga á hverjum stað. Þeir kennarar sem taka þátt í samtali og þróun breyttra starfshátta geta reiknað með að verja um 25 klukkustundum yfir veturinn.

Þróunarhringurinn

Umsjón og kennsla

Dr. Ásthildur B. Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður og myndlistarmaður. Hún starfar sem verkefnastjóri LÁN (Listræns ákalls til náttúrunnar) hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Ásthildur tók tvöfalda doktorsgráðu í myndlist og kennslufræðum þar sem hún skoðaði möguleika lista og skapandi skólastarfs í menntun til sjálfbærni, hún er með kennslureynslu á öllum skólastigum og starfar nú sem stundakennari hjá Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands.

Dr. Brynhildur Bjarnadóttir er dósent í náttúruvísindum við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún er með doktorsgráðu í skógvistfræði og áherslusviðhennar eru útikennsla, grenndarkennsla, hringrásir í náttúrunni og umhverfis- og loftslagsmál. Hún hefur víðtæka kennslureynslu úr háskóla, grunn- og framhaldsskóla og hefur beint sjónum sínum sérstaklega að kennslufræði náttúruvísinda.

Eva Harðardóttir er aðjunkt og doktorsnemi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem hún leggur áherslu á alþjóðlega borgaravitund, fólksflutninga og inngildandi menntun. Hún hefur langa kennslureynslu í framhaldsskóla og háskóla á sviði lýðræðis, mannréttinda og borgarvitundar með áherslu á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur Eva unnið sem menntasérfræðingur á vegum UNICEF í Malaví.

Margrét Hugadóttir er sérfræðingur hjá Skólum hjá grænni grein og Landvernd. Hún er reynslumikill náttúrufræðikennari og hefur lokið meistaraprófi í fjölmenningarlegum kennsluháttum. Margrét hefur komið að útgáfu fjölbreytts námsefnis sem byggir á menntun til sjálfbærni, valdeflingu og umbreytandi aðferðum.

Í hnotskurn

 • Lotur 0
 • Quizzes 0
 • Lotur: 6x3 klst.
 • Hefst: Ágúst 2021
 • Lýkur: Júní 2022
 • Gjöld: 50
 • Gjöld: 0 kr. nema annað sé tekið fram
 • 1. lota Leiðtogar og námssamfélög

  Í fyrstu lotunni er áhersla lögð á hlutverk þátttakanda sem leiðtoga í sínum skóla og hvernig þeir geta þróað og stutt við námssamfélag jafningja í skólunum. Einnig kynna kennarar viðfangsefni námskeiðsins í heild sinni og leiða þátttakendur í samtal um hlutverk leiðtogans í að þróa og styðja við námssamfélög jafningja.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 2. lota Menntun til sjálfbærni í íslenskum skólum og nemendamiðað nám

  Í lotunni kynnast þátttakendur aðferðum menntunar til sjálfbærni. Sjónum er beint að valdeflandi og þverfaglegum verkefnum.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 3. lota Sjálfbærni og skapandi þverfaglegt grenndarnám

  Í lotunni kanna þátttakendur á hvaða hátt þeir geta beitt skapandi aðferðum í kennslu sinni og tengt ólíkar námsgreinar við viðfangsefni í eigin nærumhverfi.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 4. lota Hnattræn vitund og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

  Þátttakendur skoða nærtæk verkefni með víðtæk áhrif. Fjallað verður um lýðræði og mannréttindi og hvernig gagnrýnin nálgun á borgaravitund styður við fjölmenningu og þátttökumiðað skólastarf.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 5. lota Geta til aðgerða og valdefling

  Í lotunni er unnið með valdeflingu og getu til aðgerða í gegnum verkefni sem hafa sannarleg áhrif á umhverfi og samfélag.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 6. lota Samtal um uppskeru og fengna reynslu

  Þátttakendur og kennarar námskeiðs líta um öxl, miðla reynslu sinni og horfa fram veginn með þróun sjálfbærnimenntunar í námssamfélagi að leiðarljósi.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.

Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Oddný Sturludóttir, oddnys@hi.is

Free