Markmið námskeiðsins er að styðja við kennara í grunnskólum sem hafa nú þegar tekið fyrstu skrefin í innleiðingu leiðsagnarnáms. Á námskeiðinu fá kennarar stuðning til að taka næsta skref með það í huga að festa leiðsagnarnámið í sessi í skólastarfinu. Á námskeiðinu verður áhersla lögð á að efla kennara í sínu leiðtogahlutverki svo þeir geti sem best stutt samkennara sína í innleiðingunni, sem og stutt skólann á þeim stað sem hann er staddur í þróunarstarfinu.
Skráningarfrestur er t.o.m. 26. ágúst.
Á námskeiðinu styðjast þátttakendur við þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í sínum skólum.
- nýtt þekkingu sína á fræðilegum og hagnýtum þáttum leiðsagnarnáms í starfi sínu með samkennurum og nemendum.
- stutt við þróun leiðsagnarnáms með það að markmiði að festa það í sessi, í samstarfi við samkennara og nemendur.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er ætlað kennurum og stjórnendum sem hafa nú þegar staðgóða þekkingu og reynslu af leiðsagnarnámi og hafa tekið að sér að leiða áframhaldandi þróun leiðsagnarnáms í skólum sínum. Nauðsynlegt er að frá hverjum skóla séu 2 til 3 leiðtogar á námskeiðinu, farsælt er að einn þeirra komi úr stjórnendateymi skólans og höfuðatriði að stjórnendur veiti innleiðingarferlinu svigrúm og styðji við það.
Eindregið er hvatt til þess að innan skólans sammælist kennarar og stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Námskeiðið fer fram í fjórum lotum sem hver um sig hefst og lýkur á tæplega þriggja klukkustunda kennslulotu á ZOOM. Hver lota er byggð upp í samræmi við þróunarhringinn. Í lotunum vinna leiðtogar að fyrirfram ákveðnum markmiðum með samkennurum sínum. Leiðtogum skólans gefst kostur á að eiga fund með umsjónarmönnum námskeiðsins í hverri lotu til að ræða áskoranir og tækifæri sem þeir standa frammi fyrir í þróunarstarfinu.
Dag- og tímasetningar lota
2022
Miðvikudagur, 7. september kl. 14.20-17.00
Þriðjudagur, 15. nóvember kl. 14.20-17.00
2023
Þriðjudagur, 7. mars kl. 14.20-17.00
Mánudagur, 22. maí kl. 14.20-17.00
Umsjón og kennsla
Edda Gíslrún Kjartansdóttir, aðstoðarskólastjóri í Flataskóla og Nanna Kristín Christiansen, sjálfstætt starfandi menntunarfræðingur og höfundur bókarinnar Leiðsagnarnám: Hvers vegna, hvernig, hvað?
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.