Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, námssamfélög þeirra og teymi í fyrstu skrefum í innleiðingu leiðsagnarnáms í grunnskóla. Þátttakendur öðlast hagnýta þekkingu á námsmenningu sem einkennist af leiðsagnarnámi en slík námsmenning hefur það leiðarljós að valdefla nemendur til að styðja við framfarir í námi. Á námskeiðinu kynnast þátttakendur hvernig slík námsmenning hefur orðið til í skólum leiðbeinenda og með jafningjaleiðsögn öðlast þátttakendur hæfni til að leiða þróun slíkrar námsmenningar í skólum sínum. Á námskeiðinu fá þátttakendur einnig stuðning við að leiða hóp samkennara sinna í námssamfélagi, með samræðum um leiðsagnarnám.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs
- hafa þátttakendur lært af reynslu annarra skóla af innleiðingu leiðsagnarnáms sem nýtist þeim til eigin innleiðingar.
- geta þátttakendur leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum um viðfangsefni námskeiðsins.
- geta þátttakendur nýtt þekkingu sína á fræðilegum og hagnýtum þáttum leiðsagnarnáms í starfi sínu með samkennurum og nemendum.
- geta þátttakendur stuðlað að námsmenningu sem einkennist af leiðsagnarnámi, í samstarfi við samkennara og nemendur.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er ætlað kennurum og stjórnendum sem hafa tekið að sér að hefja vinnu við að innleiða þróun leiðsagnarnáms í skólum sínum eða vilja styrkja grunninn í innleiðingu í skólum sínum
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum, á ZOOM, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2022-2023. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þeirra, í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir og teymin þeirra geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur. Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
2023
Miðvikudagur, 6. september kl. 14:15–17.00
Þriðjudagur, 3. október kl. 14.15–16.30
Fimmtudagur, 2. nóvember kl. 14:15-17:00
2024
Mánudagur, 8. janúar kl. 14.15–17.00
Miðvikudagur, 28. febrúar kl. 14.15–17.00
Þriðjudagur, 30. apríl kl. 14.30–17.00
Umsjón og kennsla
Fiona Elizabeth Oliver, kennari í Víkurskóla í Reykjavík og Helga Snæbjörnsdóttir, kennari í Hlíðaskóla í Reykjavík. Þær búa yfir langri reynslu af leiðsagnarnámi og báðir skólar eru þekkingarskólar í leiðsagnarnámi í Reykjavík.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er sóttur í smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.