Leiðsagnarnám í hvetjandi námsumhverfi

Free
KRI_menntavisindasvid_190314_009-1030×687

Skráningu er lokið á námskeiðið. Upp úr áramótum verður námskeiðsframboð Menntafléttu fyrir skólaárið 2022-2023 kynnt.

Markmið námskeiðsins er að styrkja leiðtoga við að leiða hóp samkennara sinna í námssamfélagi með samræðum um leiðsagnarnám. Þátttakendur dýpka fræðilega og hagnýta þekkingu sína á námsmenningu sem einkennist af leiðsagnarnámi en slík námsmenning hefur það leiðarljós að valdefla nemendur til að styðja við framfarir í námi. Á námskeiðinu öðlast þátttakendur hæfni til að leiða þróun slíkrar námsmenningar í skólum sínum.

Við lok námskeiðs geta þátttakendur

 • Gegnt hlutverki leiðtoga og leitt námssamfélög jafningja í eigin skóla með samtali, endurgjöf og ígrundun um breytta starfshætti
 • Nýtt þekkingu sína á fræðilegum og hagnýtum þáttum leiðsagnarnáms í starfi sínu með samkennurum og nemendum
 • Stuðlað að námsmenningu sem einkennist af leiðsagnarnámi,  í samstarfi við samkennara og nemendur.

Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?

Námskeiðið er ætlað kennurum og stjórnendum sem hafa tekið að sér að leiða þróun leiðsagnarnáms í skólum sínum. Mælt er með því að hver skóli hafi 2-5 leiðtoga á námskeiðinu, æskilegt er að einn þeirra komi úr stjórnendateymi skólans.

Hvatt er til þess að þátttakendur sammælist um skráningu við sína stjórnendur. Þannig er tryggður nauðsynlegur stuðningur við viðfangsefni námskeiðsins og þróun námssamfélags á hverjum stað.

Skráning hefst 17. maí 2021.

Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?

Námskeiðið fer fram rafrænt í sex lotum, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2021-2022. Skoðað verður með þátttakendum hvort tækifæri gefist á staðlotum. Á milli lota vinna leiðtogar með hagnýtar kveikjur námskeiðsins í hópi samstarfsfólks og flétta þannig viðfangsefnin við daglegt starf. Í upphafi hverrar lotu er farið yfir reynslu leiðtoga af starfinu í skólunum. 

Dag- og tímasetningar kennslulotanna eru:

2021
Mánudagur 30
. ágúst kl. 14-17
Mánudagur 20. september kl. 14-17
Fimmtudagur 4. nóvember kl. 14-17
2022
Mánudagur 10. janúar kl. 14-17
Fimmtudagur 10. mars kl. 14-17
Mánudagur 16. maí kl. 14-17

Reikna má með því að leiðtogarnir verji um 50 klukkustundum í heildina yfir veturinn vegna námskeiðsins, í bæði námslotur sem og stuðning við þróun námssamfélaga á hverjum stað. Þeir kennarar sem taka þátt í samtali og þróun breyttra starfshátta geta reiknað með að verja um 25 klukkustundum yfir veturinn.

Þróunarhringurinn

Á milli lota styðjast leiðtogar við þessi fjögur skref þróunarhrings, með samkennurum og samstarfsfólki. Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.

Umsjón og kennsla

Edda Gíslrún Kjartansdóttir, aðstoðarskólastjóri í Flataskóla, Nanna Kristín Christiansen, sjálfstætt starfandi menntunarfræðingur og Rúnar Sigþórsson, prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri. 

Edda, Nanna og Rúnar munu fá til liðs við sig kennara og aðra sérfræðinga af vettvangi. 

Í hnotskurn

 • Lotur 0
 • Quizzes 0
 • Lotur: 6x3 klst.
 • Hefst: Ágúst 2021
 • Lýkur: Maí 2022
 • Gjöld: 1
 • Gjöld: Mismunandi
 • 1. lota Leiðtogar og námssamfélög

  Í fyrstu lotunni er áhersla lögð á hlutverk þátttakenda sem leiðtoga í sínum skóla og hvernig þeir geta þróað og stutt við námssamfélag jafningja í skólunum. Einnig kynna kennarar viðfangsefni námskeiðsins í heild sinni.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 2. lota Námsmenning

  Í þessari lotu er fjallað um námsmenningu sem grunn að leiðsagnarnámi. Markmiðið er að þátttakendur dýpki þekkingu sína og skilning á einkennum námsmenningar leiðsagnarnáms bæði frá fræðilegu og hagnýtu sjónarhorni og hvað þarf til svo að hún einkenni starfið í kennslustofunni.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 3. lota Hæfniviðmið, námsmarkmið og viðmið um árangur

  Í þessari lotu er fjallað um hæfniviðmið, námsmarkmið og viðmið um árangur. Markmiðið er að þátttakendur dýpki þekkingu sína og skilning á mikilvægi þess að í kennslustofunni og allri vinnu sinni sé nemendum ljóst að hverju þeir stefna, hvað þeir læra af þeim viðfangsefnum sem þeir fást við og hvaða væntingar og kröfur eru gerðar til þeirra.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 4. lota Endurgjöf

  Í þessari lotu er fjallað um endurgjöf í leiðsagnarnámi. Markmið lotunnar er að þátttakendur öðlist dýpri skilning á fyrirbærinu endurgjöf, áhrifum hennar á nemendur og hlutverki hennar í námsmenningu og leiðsagnarnámi og móti sér hugmyndir um leiðir til að beita og nýta endurgjöf í leiðsagnarnámi.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 5. lota Hlutdeild og virkni nemenda

  Í þessari lotu er fjallað um virkni nemenda í eigin námi. Markmið lotunnar er að þátttakendur þekki aðferðir til að auka hlutdeild og virkni nemenda í eigin námi og til að byggja upp námssamfélög þar sem nemendur læra saman og hverjir af öðrum, og geti innleitt slíkar aðferðir í daglegt starf sitt.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 6. lota Samtal um uppskeru og fengna reynslu

  Leiðtogar úr grunnskólum og kennarar námskeiðs líta um öxl, miðla reynslu sinni og horfa fram á veginn með þróun leiðsagnarnáms í námssamfélagi að leiðarljósi.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.

Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Oddný Sturludóttir, oddnys@hi.is

Free