Námskeiðið er ætlað framhaldsskólakennurum í öllum námsgreinum sem vilja efla námskraft nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi með aðferðum leiðsagnarnáms og gróskuhugarfars. Á námskeiðinu verður fjallað um námsmenningu og námsumhverfi, markmið og endurgjöf, meðnám og virkni nemenda, gróskuhugarfar og ábyrgð nemenda á eigin námi. Á námskeiðinu fá þátttakendur hvatningu til að taka þátt í þróun námssamfélaga jafningja með samtali, endurgjöf og ígrundun um breytta starfshætti, bæði í eigin skóla og þvert á framhaldsskóla.
Skráningarfrestur er t.o.m. 26. ágúst.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samræður um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teymi sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymi þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs hafa þátttakendur:
- fengið tækifæri til að prófa nýjar aðferðir og breytta starfshætti um leiðsagnarnám og námskraft nemenda.
- öðlast færni í að leiða hópa samkennara í samræðu um eigið starf.
- borið saman bækur við þátttakendur á námskeiðinu um ýmsar nýjungar sem eru prófaðar um leiðsagnarnám og námskraft nemenda og ræða styrkleika og veikleika þeirra.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er ætlað framhaldsskólakennurum í öllum námsgreinum Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum skóla, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur sammælist við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2022-2023, á ZOOM. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þátttakenda í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir – og teymin þeirra geta fléttað saman við daglegt starf.
Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
2022
Mánudagur, 12. september kl. 14.00-17.00
Þriðjudagur, 11. október kl. 14.00-17.00
Miðvikudagur, 9. nóvember kl. 14.00-17.00
2023
Fimmtudagur, 19. janúar kl. 14.00-17.00
Mánudagur, 6. mars kl. 14.00-17.00
Þriðjudagur, 18. apríl kl. 14.00-17.00
Umsjón og kennsla
Hildur Jónsdóttir, kennari við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ, Hjördís Alda Hreiðarsdóttir og Hjördís Þorgeirsdóttir, kennarar við Menntaskólann við Sund, Ívar Rafn Jónsson, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er sóttur í smiðju Skolverket og nýttur með góðfúslegu leyfi.