Málið okkar allra: Ný sýn í málfræðikennslu

Free
kri_huf18_180615_007

Markmið námskeiðsins er að styrkja íslenskuleiðtoga við að leiða hóp samkennara sinna í námssamfélagi með samræðum um íslenskunám og kennslu. Kennurum verða færð verkfæri til að virkja sköpunarkraft og eðlislæga forvitni nemenda gagnvart tungumálinu, með áherslu á að nýta þau námsgögn sem kennurum standa til boða. Í námskeiðinu verður hugmyndafræði lýsandi málfræði höfð að leiðarljósi samhliða forskriftarmálfræði. Fjallað verður um hagnýtar leiðir til að draga fram meðvitund nemenda um eigin málkunnáttu og málnotkun sem og hvernig nota megi tungumálið og viðeigandi málsnið á fjölbreytilegan hátt eftir aðstæðum í ræðu og riti. Námskeiðinu er ætlað að styrkja kennara í að gera nemendur að ábyrgum málnotendum sem vilja nota tungumálið á öllum sviðum lýðræðissamfélags í samræmi við hæfni- og matsviðmið aðalnámskrár.

Við lok námskeiðs geta þátttakendur

 • Gegnt hlutverki leiðtoga og leitt námssamfélög jafningja í eigin skóla með samtali, endurgjöf og ígrundun um breytta starfshætti
 • Eflt hæfni sína í að fjalla um íslenskt mál og málfræði á nýstárlegan hátt
 • Leitt þróun í málfræðikennslu, verkefnagerð og nýtingu kennslugagna
 • Unnið með námskrá og námsgögn á sjálfstæðan hátt

Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?

Námskeiðið er fyrir kennara sem kenna íslensku í 7. – 10. bekk og hafa áhuga á þróun námssamfélags innan síns skóla með áherslu á íslenskukennslu. Mælt er með því að hver skóli hafi tvo leiðtoga á námskeiðinu en það er þó ekki skilyrði.

Stjórnendur skóla skrá leiðtoga á námskeið. Með skráningu sammælast stjórnendur og þátttakendur um að styðja við þróun námssamfélaga, með nauðsynlegu svigrúmi til stefnumóta og samtals á hverjum stað með hópi samstarfsfólks.

Skráning hefst í fyrstu viku maímánaðar 2021. Þá liggja fyrir nákvæmar dag- og tímasetningar lotanna.

Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?

Námskeiðið fer fram rafrænt í 6 lotum, 3 klukkustundir að lengd, skólaárið 2021-2022. Skoðað verður með þátttakendum hvort tækifæri gefist á staðlotum. Á milli lota vinna leiðtogar með hagnýtar kveikjur námskeiðsins í hópi samstarfsfólks og flétta þannig viðfangsefnin við daglegt starf. Í upphafi hverrar lotu er farið yfir reynslu leiðtoga af starfinu í skólunum. 

Reikna má með því að leiðtogarnir verji um 50 klukkustundum í heildina yfir veturinn vegna námskeiðsins, í bæði námslotur sem og stuðning við þróun námssamfélaga á hverjum stað. Þeir kennarar sem taka þátt í samtali og þróun breyttra starfshátta geta reiknað með að verja um 25 klukkustundum yfir veturinn.

Þróunarhringurinn

Á milli lota styðjast leiðtogar við þessi fjögur skref þróunarhrings, með samkennurum og samstarfsfólki.

Umsjón og kennsla

Finnur Friðriksson, dósent í íslensku við Háskólann á Akureyri, Hanna Óladóttir, lektor í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Helga Birgisdóttir, aðjunkt í kennslu íslensku við  Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Í hnotskurn

 • Lotur 0
 • Quizzes 0
 • Lotur: 6x3 klst.
 • Hefst: Ágúst 2021
 • Lýkur: Maí 2022
 • Gjöld: 0
 • Gjöld: 0 kr. nema annað sé tekið fram
 • 1. lota Leiðtogar og námssamfélög

  Í fyrstu lotunni er áhersla lögð á hlutverk þátttakenda sem leiðtoga í sínum skóla og hvernig þeir geta þróað og stutt við námssamfélag jafningja. Einnig kynna kennarar viðfangsefni námskeiðsins í heild sinni.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 2. lota Málið og hugmyndafræðin

  Í annarri lotu verður farið yfir lýsandi málfræði, forskriftarmálfræði og notagildi í skólastarfi.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 3. lota Málið og námskráin

  Í þriðju lotu verður fjallað um tækifærin sem aðalnámskrá býður upp á í skapandi málfræðikennslu.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 4. lota Málið og skólabækurnar

  Í fjórðu lotu verður fjallað um hvernig hægt er að nýta námsgögn með nýjum hætti.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 5. lota Málið og ritun

  Í fimmtu lotu verður fjallað um hvernig samtvinna má kennslu í ritun og kennslu um tungumálið.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 6. lota Samtal um uppskeru og fengna reynslu

  Leiðtogar úr grunnskólum og kennarar námskeiðs líta um öxl, miðla reynslu sinni og horfa fram veginn með þróun íslenskukennslu í námssamfélagi að leiðarljósi.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.

Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Oddný Sturludóttir, oddnys@hi.is

Free