„Þetta er í alla staði frábært námskeið, vel sett fram og hefur svo sannarlega uppfyllt væntingar mínar. Ég hlakka alltaf til næsta tíma“.
Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, þeirra námssamfélög og teymi í að efla málþroska barna í leikskólanum gegnum sögur og söng. Fjallað verður um hvernig barnabókmenntir og tónlist megi nýta á skapandi og markvissan hátt til málörvunar barna. Leikurinn sem námsleið er í brennidepli og fjallað verður um leiðir til að efla málskilning og tjáningarfærni barna með því að nota sögur, vísur og ljóð á skapandi hátt í samverustundum og sem efnivið í frjálsum leik úti og inni. Aðlaga má viðfangsefni námskeiðsins þannig að það henti leikskólabörnum á öllum aldri.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í skólum og á vinnustöðum.
- átt samræður við börn um bækur sem stuðlað geta að eflingu alhliða málþroska þeirra.
- nýtt sögur og ljóð sem uppsprettu leikja, myndrænnar tjáningar og ritunar.
- tileinkað sér aðferðir til að efla frásagnarhæfni barna með endursögn og sköpun á nýjum sögum.
- unnið með orðaforða út frá ólíkum þörfum og aldri barna.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?
Námskeiðið er fyrir leikskólakennara og starfsfólk leikskóla sem hefur áhuga á að þróa námssamfélags innan síns leikskóla með áherslu á málskilning, orðaforða og tjáningu, í gegn um sögur og söngva. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum leikskóla, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í leikskóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum á heimasíðu Menntafléttu á þeim tíma sem hentar þátttakendum sjálfum. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í leikskólum þeirra í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur.
Umsjón og kennsla
Birte Harksen, leikskólakennari á Urðarhóli og handhafi Íslensku menntaverðlaunanna árið 2020 sem framúrskarandi kennari og Dr. Rannveig Oddsdóttir, lektor í menntun yngri barna við Háskólann á Akureyri.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.
„Þessi verðlaun [Íslensku menntaverðlaunin] draga fram að starfið á leikskólum landsins er faglegt, metnaðarfullt og flott“.
Birte HarksenKennari námskeiðsins, leikskólakennari og handhafi Íslensku menntaverðlaunanna 2020 sem framúrskarandi kennari
„Barnabækur eru kjörnar til að kynna menningu ólíkra hópa og opna börnum sýn inn í annan veruleika en þann sem þau lifa og hrærast í“.
Rannveig OddsdóttirKennari námskeiðsins og lektor við Háskólann á Akureyri
„Skemmtilegt námskeið sem hvetur til fjölbreyttra aðferða í málörvunarverkefnum með börnum. Auðgar sögu- og söngstundir. Birte er dásamleg og full af hugmyndum sem hvetja mann til að grafa eftir “propsum” til að nota með í samverustundum“.
Þátttakandi á námskeiðinu Málörvun með sögum og söng veturinn 2021-2022
Previous
Next
Í hnotskurn
- Lotur 0
- Quizzes 0
- Lotur: 6x3 klst.
- Hefst: All levels
- Gjöld: 0
- Gjöld: Mismunandi