Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, þeirra námssamfélög og teymi í að vinna að verkefnum sem byggja á Vidubiology- verkefninu þar sem nemendur eru virkjaðir til að taka myndir og búa til myndbönd og nota þau til að rannsaka og læra um náttúruna á áhugaverðan og skemmtilegan hátt. Reynslan sýnir að grunnhugmynd Vidubiology nýtist einnig vel í öðrum námsgreinum.
Á námskeiðinu verður unnið með gagnlegar hugmyndir og leiðir að því hvernig nýta má myndvinnslu og aðra stafræna tækni í útinámi og náttúrufræðikennslu í grunnskólum.
Unnið verður með tækni eins og ljósmyndasögur, hikmyndir, hrað- og hægspilun til að auðga náttúrufræðikennslu barna og ungmenna á öllum árstíðum. Þátttakendur fá dæmi um þemu sem þeir geta unnið með nemendum og eru í samræmi við hæfniviðmið aðalnámskrár. Verkefnin byggja á því að kveikja og efla áhuga á náttúrunni þar sem nemendur vinna með margmiðlunartækni um leið og þeir læra um tiltekin fyrirbæri náttúrunnar. Sérstaklega verður fjallað um gagnsemi stafrænnar tækni og miðla við rannsókna- og uppgötvunarnám.
Skráningarfrestur er t.o.m. 26. ágúst.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skráir hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í skólum.
- notað ýmsar gerðir forrita og tækja við myndatökur og myndvinnslu.
- skipulagt kennslu þar sem nemendur vinna með myndatökur og gerð myndskeiða.
- notað nærumhverfið til að kenna um náttúruna á öllum árstíðum.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er fyrir kennara sem kenna náttúrufræði á öllum stigum grunnskólans.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2022-2023 á ZOOM. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þátttakenda í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir – og teymin þeirra geta fléttað saman við daglegt skólastarf.
Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
2022
Mánudagur, 29. ágúst kl.13.00-16.00
Mánudagur, 7. nóvember kl. 13.00–16.00
2023
Mánudagur, 23. janúar kl. 13.00–16.00
Mánudagur, 20. mars kl. 13.00-16.00
Mánudagur, 24. apríl kl. 13.00-16.00
Mánudagur, 8. maí kl. 13.00–16.00
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.