„Náttúrufræðin er lífið allt, hún kemur alls staðar við sögu í daglegu lífi; hvað þú borðar, hvernig þú hreyfir þig á milli staða og nýtir það sem þú hefur. Þess vegna er svo skemmtilegt að samþætta hana öðrum námsgreinum. Eiginlega nauðsynlegt.“
Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, þeirra námssamfélög og teymi með áherslu á samþættingu náttúrufræði með öðrum námsgreinum. Námskeiðið er ætlað kennurum sem hafa hug á að tengja námsgreinar, með áherslu á náttúrugreinar og opna þannig á möguleika þess að vinna nýja nálgun í námi nemenda. Einnig er námskeiðinu ætlað að styrkja þátttakendur í teymiskennslu og samvinnu með hliðsjón af samþættingu. Fjallað verður um viðfangsefni hverrar lotu út frá samþættu verkefni sem kennarar námskeiðsins hafa þegar nýtt í kennslu.
Skráningarfrestur er t.o.m. 26. ágúst.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur:
- Leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í skólum og á vinnustöðum.
- Nýtt fjölbreytt verkefni sem auka virkni og valdefla nemendur.
- Nýtt sér hagnýtar leiðir til þess að samþætta náttúrufræði við aðrar námsgreinar.
- Komið auga á kosti teymiskennslu og hafa lært leiðir að farsællri samvinnu.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er fyrir kennara á mið- og unglingastigi grunnskólans. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum skóla, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur sammælist við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum á heimasíðu Menntafléttu á þeim tíma sem hentar hverjum þátttakanda. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þeirra í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir – og teymin þeirra geta fléttað saman við daglegt skólastarf.
Umsjón og kennsla
Ólöf Ása Benediktsdóttir og Óðinn Ásgeirsson, kennarar í Hrafnagilsskóla og
Brynja Stefánsdóttir, kennari í Stapaskóla
Myndin er af nemendum í 8. bekk í Hrafnagilsskóla við krufningu á fiskum. Krufningin var hluti af samþættu þemaverkefni sem nemendur í 8.-10. bekk tóku þátt í.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.
„Náttúrugreinar eru áhugaverðar, spennandi, skapandi, vekja spurningar og geta aukið rökhugsun og tengingu nemenda við ótrúlegustu viðfangsefni. Það er mikilvægt að fá tækifæri til að kynnast þeim hliðum sem efla eigin forvitni og sjá hvert hún leiðir okkur og okkar skilning.“
Brynja StefánsdóttirKennari námskeiðsins og kennari í í Stapaskóla
Í hnotskurn
- Lotur 0
- Quizzes 0
- Lotur: 6x3 klst.
- Hefst: All levels
- Gjöld: 0
- Gjöld: Mismunandi