Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, námssamfélög þeirra og teymi í að vinna með stærðfræði og forritun. Á þessu námskeiði er fjallað um nokkur lykilatriði í kennslu með forritun og um forritun í stærðfræðinámi. Í fyrstu tveimur þróunarhringjunum er fjallað almennt um forritun í kennslu og meginhugtök forritunar eru kynnt. Einnig er hugað að þeim kennslufræðilegu ákvörðunum sem þarf að hafa í huga við kennslu í forritun. Í tveimur seinni þróunarhringjunum er lögð áhersla á tengsl forritunar og stærðfræði. Skoðað er hvernig hægt er að nota stærðfræði til að auðga vinnu við forritun og hvernig má dýpka stærðfræðinám með því að láta nemendur velta fyrir sér hvaða stærðfræði þeir eru að nota í forritunarverkefnum.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samræður um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teymi sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymi þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Námskeiðið byggir á efni frá sænsku menntamálastofnuninni Skolverket með góðfúslegu leyfi þeirra.
Við lok námskeiðs hafa þátttakendur kynnst
- leiðum til að efla námssamfélag sitt með umræðum um þróun stærðfræðikennslu.
- lesefni og hugmyndum að viðfangsefnum tengdum forritun í stærðfræði.
- ýmsum forritunarhugtökum sem tengjast stærðfræði- og forritunarkennslu.
- hvernig styðja má nemendur við að forrita sem hluta af stærðfræðinámi.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?
Námskeiðið er fyrir stærðfræðikennara á unglingastigi. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum skóla, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur skrái sig í samráði við stjórnendur sína um þátttöku á námskeiðinu. Það tryggir að stjórnendur séu meðvitaðir um og samábyrgir fyrir að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2022-2023 með fjarfundarbúnaði. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þátttakenda í samræðum teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur.
Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
2022
Fimmtudagur, 8. september kl. 14.00–17.00
Fimmtudagur, 29. september kl. 14.00–17.00
Fimmtudagur, 10. nóvember kl. 14.00–17.00
2023
Fimmtudagur, 12. janúar kl. 14.00–17.00
Fimmtudagur, 2. mars kl. 14.00–17.00
Fimmtudagur, 4. maí kl. 14.00–17.00
Umsjón og kennsla
Ingólfur Gíslason, aðjúnkt í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Jóhann Örn Sigurjónsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er sóttur í smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.