„Getur þú búið til meira svona digital drama námsefni, part tvö? Fyrir næsta ár?“
Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, þeirra námssamfélög og teymi með áherslu á kennslu stafrænnar borgaravitundar. Stafræna borgaravitund meðal nemenda er æskilegt að kenna jafnt og þétt á skólagöngunni. Með stafrænni borgaravitund er leitast við að nemendur öðlist hæfni til að lifa ábyrgu, heilbrigðu og ánægjulegu lífi í stafrænum heimi. Þar sem stafræn tækni hefur orðið meira áberandi í grunnskólastarfinu á öllum aldursstigum. Umgengni og ábyrg netnotkun ætti að vera samofin þeirri menningu um stafræna tækni og netnotkun sem í skólanum er og áherslum um lykilhæfni Aðalnámskrár grunnskóla (2011). Grunnefnið sem lagt verður til grundvallar námskeiðinu er að finna á þessari slóð.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í skólum.
- útskýrt hvað stafrænn borgari er, hlutverk hans og ábyrgð.
- beitt leiðum til að tengja notkun upplýsingatækni í námi og kennslu við alla þætti stafrænnar borgaravitundar.
- tekið þátt í mótun viðmiða um kennslu í stafrænni borgaravitund.
- greint helstu lög og reglur sem tengjast viðfangsefninu.
- valið hugbúnað með tilliti til áhættumats kennsluhugbúnaðar.
- fundið og notað helstu bjargir fyrir kennslu í stafrænni borgaravitund.
- leiðsagt nemendum í átt að góðri öruggri netnotkun og siðferði við notkun stafrænnar tækni.
- hjálpað nemendum að leysa úr deilumálum sem eiga uppruna sinn á netinu.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er fyrir kennara á öllum stigum grunnskólans og hentar sérstaklega umsjónar- og lífsleiknikennurum. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum skóla, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum á heimasíðu Menntafléttu á þeim tímum sem hentar þátttakanda hverju sinni. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þeirra, í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur. Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Umsjón og kennsla
Bergþóra Þórhallsdóttir, verkefnastjóri í upplýsingatækni, Grunnskóladeild Kópavogsbæjar, Sigurður Haukur Gíslason, kennsluráðgjafi í upplýsingatækni við Grunnskóla Kópavogsbæjar, Sigurður Sigurðsson, sérfræðingur í miðlanotkun barna og ungmenna hjá SAFT, Svava Pétursdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Sæmundur Helgason, grunnskólakennari Langholtsskóla.
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er sóttur í smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.
„Reynslan verður að teljast mjög góð og það var greinilegt á viðbrögðum nemenda að þeim líkaði vel inntak námsefnisins. Þeim fannst mjög mikilvægt að ræða um stafræna borgararvitund í skólanum og hlakka til þess að fá meira sambærilegt námsefni.“
Úr meistararitgerð Sæmundar Helgasonar frá 2021Höfundur er einn kennara námskeiðsins
“Þjálfa þarf hvern nemanda markvisst í upplýsinga- og miðlalæsi alla skólagönguna. Samhliða nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni á Netinu er nauðsynlegt að þeir þekki helstu reglur um örugg samskipti á stafrænum miðlum og höfundarétt. Þeir eiga jafnframt að virða siðferði í meðferð upplýsinga og heimilda og sýna víðtæka hæfni í notkun tækni og miðlunar.“
Úr aðalnámskrá grunnskóla, bls. 225
„Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast við á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á”.
Úr aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, bls. 18-19
Previous
Next
Í hnotskurn
- Lotur 0
- Quizzes 0
- Lotur: 6x3 klst.
- Hefst: All levels
- Gjöld: 0
- Gjöld: Mismunandi