Markmið námskeiðsins er tvíþætt. Annars vegar að gefa þátttakendum tækifæri til að efla sig í starfi. Hins vegar að stuðla að því að þátttakendur verði virkir og viðurkenndir í námssamfélögum á sínum starfsvettvangi. Námskeiðið byggist á því að þátttakendur safni að sér hagnýtum hugmyndum og aðferðum til að nýta í starfi með fjölbreyttum hópi barna og ungmenna. Þátttakendur fá tækifæri til að ræða og prófa ýmsar leiðir til að efla sig í starfi og samstarfi.
Skráningarfrestur er t.o.m. 16. ágúst.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samtal um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Þátttakendur styðjast við skrefin fjögur á starfsvettvangi sínum, með öðrum stuðningsfulltrúum og frístundaleiðbeinendum, sem og samstarfsfólki sínu, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teyminu sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymið þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendurnir brugðust við.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- gegnt hlutverki leiðtoga og miðla hugmyndum og aðferðum til jafningja í eigin skóla eða frístundamiðstöð með samtali, endurgjöf og ígrundun um breytta starfshætti.
- gert sér betur grein fyrir stöðu sinni, ábyrgð og hlutverki á vinnustaðnum.
- nýtt sér hagnýtar leiðir til að stuðla að þátttöku barna og unglinga með ólíkar þarfir.
- nýtt sér skapandi og fjölbreyttar leiðir til að takast á við áskoranir og krefjandi aðstæður.
- tekið þátt í og mótað sína starfsþróun af öryggi á þeim forsendum sem starf þeirra byggir á.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?
Námskeiðið er fyrir stuðningsfulltrúa í grunnskólum og frístundaleiðbeinendur sem vinna með börnum og unglingum á grunnskólaaldri.
Námskeiðið byggist á því að hver skóli eða frístundamiðstöð sendir a.m.k. 2 leiðtoga á námskeiðið, úr röðum stuðningsfulltrúa og frístundaleiðbeinanda. Í 1. og 5. lotu námskeiðs taki einnig þátt sá aðili sem á í nánasta samstarfi í daglegum störfum og verkefnum stuðningsfulltrúans og frístundaleiðbeinandans. Þetta gæti t.d. verið umsjónarkennari, stjórnandi í skóla, forstöðumaður frístundamiðstöðvar, deildarstjóri eða fagfólk í stoðþjónustu.
Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Stjórnendur skóla skrá leiðtoga á námskeið og taka sjálfir þátt í fyrstu lotu. Með skráningu sammælast stjórnendur og þátttakendur um að styðja við þróun námssamfélaga, með nauðsynlegu svigrúmi til stefnumóta og samtals á hverjum stað með hópi samstarfsfólks.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Námskeiðið fer fram á ZOOM í sex lotum, 2,5 klukkustundir að lengd, skólaárið 2022-2023. Mikilvægt er að hver þátttakandi hafi aðgang að eigin tölvu, ipad eða öðru samskiptatæki til að taka þátt í námskeiðinu
Á milli lota halda þátttakendur dagbók og vinna með hagnýtar kveikjur námskeiðsins í hópi samstarfsfólks og flétta þannig viðfangsefnin við daglegt starf. Í upphafi hverrar lotu er farið yfir reynslu þátttakenda af starfinu í skólunum frá því í síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
2022
Fimmtudagur, 18. ágúst kl. 8.30-11.00
Mánudagur, 19. september kl. 11:30-14:00
Fimmtudagur, 13. október kl. 8:30-11:00
2023
Mánudagur, 9. janúar kl. 11.30-14.00
Fimmtudagur, 2. mars kl. 8.30-11.00
Mánudagur, 17. apríl kl. 11.30-14.00
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.