Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, námssamfélög þeirra og teymi í að efla þekkingu sína á og hæfni í umræðum um þróun talna- og aðgerðaskilnings barna. Unnið verður með hugmyndir um Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna. Einkenni ólíkra þrautagerða í samlagningu, frádrætti, margföldun og deilingu verða skoðuð. Greindar verða lausnaleiðir barna sem fram koma í glímu þeirra við ólíkar þrautir og þær skoðaðar með tilliti til inntaks og kennsluhátta. Á námskeiðinu er stuðst við efni úr bókinni Childrens Mathematics – Cognitively Guided Instruction. Miðað er við að kennarar leggi þrautir fyrir nemendur sína og greini lausnir þeirra á grundvelli efnis námskeiðsins. Í umræðum eru bæði skoðaðar íslenskar upptökur af börnum sem glíma við þrautir og reynsla kennara rædd í ljósi lesefnis og myndefnis.
Á námskeiðinu læra þátttakendur að nýta þróunarhring (sjá mynd neðar) í fjórum skrefum, sem styður við samræður um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru stigin í skólanum, á milli kennslulota í Menntafléttunni:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teymi sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymi þeirra framkvæmir og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendur brugðust við.
Við lok námskeiðs hafa þátttakendur kynnst
- leiðum til að efla námssamfélag sitt með umræðum um þróun stærðfræðikennslu.
- lesefni og myndefni um þróun talna- og aðgerðaskilnings barna.
- ólíkum þrautagerðum í samlagningu, frádrætti, margföldun og deilingu.
- því hvernig greina má aðgerðaskilning barna út frá lausnaleiðum þeirra.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?
Námskeiðið er fyrir kennara á yngsta stigi grunnskóla. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum skóla en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur skrái sig í samráði við stjórnendur sína um þátttöku á námskeiðinu. Það tryggir að stjórnendur séu meðvitaðir um og samábyrgir fyrir að styðja við þróun námssamfélaga innan stofnana sinna. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2022-2023 á ZOOM. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þátttakenda í samræðum teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur.
Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
2022
Fimmtudagur, 8. september kl. 14.00-17.00
Fimmtudagur, 29. september kl. 14.00-17.00
Fimmtudagur, 10. nóvember kl. 14.00-17.00
2023
Fimmtudagur, 12. janúar kl. 14.00-17.00
Fimmtudagur, 2. mars kl. 14.00-17.00
Fimmtudagur, 4. maí kl. 14.00-17.00
Þróunarhringurinn
Þróunarhringurinn er sóttur í smiðju Skolverket og nýttur með góðfúslegu leyfi.