Málörvun með sögum og söng

Free
Mynd Birte

Markmið námskeiðsins eru að styrkja leiðtoga í leikskólastarfi við að leiða hóp samkennara og samstarfsfólks í námssamfélagi með samræðum um gildi sagna og söngva í leikskólastarfi. Fjallað verður um hvernig barnabókmenntir og tónlist megi nýta á skapandi og markvissan hátt til málörvunar barna. Leikurinn sem námsleið er í brennidepli og fjallað verður um leiðir til að efla málskilning og tjáningarfærni barna með því að nota sögur, vísur og ljóð á skapandi hátt í samverustundum og sem efnivið í frjálsum leik úti og inni. Aðlaga má viðfangsefni námskeiðsins þannig að það henti leikskólabörnum á öllum aldri.

Við lok námskeiðs geta þátttakendur

 • Gegnt hlutverki leiðtoga og leitt námssamfélög í eigin skóla með samtali, endurgjöf og ígrundun um breytta starfshætti
 • Átt samræður við börn um bækur sem stuðlað geta að eflingu alhliða málþroska þeirra.
 • Nýtt sögur og ljóð sem uppsprettu leikja, myndrænnar tjáningar og ritunar.
 • Tileinkað sér aðferðir til að efla frásagnarhæfni barna með endursögn og sköpun á nýjum sögum.
 • Unnið með orðaforða út frá ólíkum þörfum og aldri barna.

Fyrir hverja er námskeiðið og hvernig fer skráning fram?

Námskeiðið er fyrir leikskólakennara og starfsfólk leikskóla sem hefur áhuga á að þróa námssamfélag innan síns skóla með áherslu á málskilning, orðaforða og tjáningu, í gegnum sögur og söngva. Mælt er með því tveir leiðtogar úr hverju leikskóla sæki námskeiðið.

Hvatt er til þess að þátttakendur sammælist um skráningu við sína stjórnendur. Þannig er tryggður nauðsynlegur stuðningur við viðfangsefni námskeiðsins og þróun námssamfélags á hverjum stað.

Skráning hefst 17. maí 2021. 

Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?

Námskeiðið fer fram rafrænt í sex lotum, þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2021-2022. Skoðað verður með þátttakendum hvort tækifæri gefist á staðbundinni kennslu. Á milli lota vinna þátttakendur með hagnýtar kveikjur námskeiðsins í hópi samstarfsfólks og flétta þannig viðfangsefnin við daglegt starf. Í upphafi hverrar lotu er farið yfir reynslu leiðtoga af starfinu í leikskólunum. 

Stjórnendur þurfa að tryggja leiðtogum svigrúm til að vinna með samstarfsfólki að starfsþróun innan leikskólans.

Dag- og tímasetningar lotanna: 
2021

Fimmtudagur 16. september kl. 9-12
Fimmtudagur 28. október kl. 9-12
Fimmtudagur 25. nóvember kl. 9-12
2022
Fimmtudagur 27. janúar kl. 9-12
Fimmtudagur 17. mars kl. 9-12
Fimmtudagur 12. maí kl. 9-12

Námskeiðið sækir að hluta til í smiðju Skolverket, með góðfúslegu leyfi.

Þróunarhringurinn

Á milli lota styðjast leiðtogar við þessi fjögur skref þróunarhrings, með samkennurum og samstarfsfólki. Þróunarhringurinn er úr smiðju Skolverket í Svíþjóð og nýttur með góðfúslegu leyfi.

Umsjón og kennsla

Birte Harksen, leikskólakennari á Urðarhóli og handhafi Íslensku menntaverðlaunanna árið 2020 sem framúrskarandi kennari, Dr. Rannveig Oddsdóttir, lektor í menntun yngri barna við Háskólann á Akureyri og Dr. Sigríður Ólafsdóttir, lektor í málþroska, læsi og fjöltyngi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Í hnotskurn

 • Lotur 0
 • Quizzes 0
 • Lotur: 6x3 klst.
 • Hefst: September 2021
 • Lýkur: Maí 2022
 • Gjöld: 0
 • Gjöld: Mismunandi
 • 1. lota Leiðtogar og námssamfélög

  Í fyrstu lotunni er áhersla lögð á hlutverk þátttakenda sem leiðtoga í sínum skóla og hvernig þeir geta þróað og stutt við námssamfélag jafningja í skólunum. Einnig kynna kennarar viðfangsefni námskeiðsins í heild sinni.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 2. lota Söguspjall

  Markmið lotunnar eru að kynna leiðir til eflingar orðaforða og hlustunarskilnings og leiðir til að efla samræður um sögur sem börnum eru sagðar eða lesnar fyrir þau. Unnið verður með orðaforða, þ.e. hvernig orð eru útskýrð og unnið með þau í leikskólastarfi á fjölbreyttan hátt. Fjallað verður um opnar spurningar sem hvetja til samræðna um efni barnabóka.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 3. lota Sögur og leikur

  Markmið lotunnar eru að kynna leiðir til að efla tjáningu og sköpun leikskólabarna og hvernig nota má sögur sem uppsprettu leikja og leikrænnar tjáningar úti og inni. Fjallað verður um leiðir til að styðja við að börnin endurskapi sögu sem þau hafa hlustað á sem og hvernig má ýta undir að börn búi sjálf til margvíslegt leikefni tengt sögu sem hefur verið lesin.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 4. lota Sögur í tónlist

  Markmið lotunnar eru að kynna leiðir til að efla orðaforða og málskilning leikskólabarna og njóta gleðinnar í tónlistinni. Fjallað verður um leiðir til að vinna með inntak textanna sem sungnir eru, s.s. með því að leika, teikna eða endursegja þá.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 5. lota Sögur, frásögn og endursögn

  Markmið lotunnar eru að kynna leiðir sem efla tjáningu og frásagnarhæfni. Fjallað verður um leikefni sem tengist sögum í leikskólastarfinu, og hvernig hægt er að hvetja börnin til að segja frá og búa til sínar eigin sögur. Sögupokar, sögukassar ásamt smáforritum verða nýtt sem efniviður í leik og sköpun.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.
 • 6. lota Samtal um uppskeru og fengna reynslu

  Leiðtogar úr leikskólum og kennarar námskeiðs líta um öxl, miðla reynslu sinni og horfa fram á veginn með þróun námssamfélags í leikskóla sem vinnur með orðaforða, tjáningu og málskilning í gegnum sögur og söngva í leikskólastarfinu.

  Skoðið námskeiðsvef til að sækja frekari gögn.

Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Oddný Sturludóttir, oddnys@hi.is

Free