Rauði þráður Menntafléttunnar er að styðja við að námssamfélög blómstri á vinnustöðum þátttakenda, gefa þátttakendum tækifæri til að víkka út tengslanet sitt og nýta menntarannsóknir og jafningjastuðning til að efla eigið starf.
Menntafléttunámskeiðin eru miðuð við að hópur samstarfsfólks vinni saman að þróun kennslu- og starfshátta á vinnustað. Námskeið eru kennd í nokkrum lotum (oftast eru loturnar 6) sem dreifast jafnt yfir veturinn. Hver samstarfshópur velur sér 1-2 leiðtoga sem mæta í lotur.
Allt efni er aðgengilegt á vef Menntafléttunnar. Efni hvers þróunarhrings opnast eftir því sem líður á námskeiðin.
Í Opnu Menntafléttunni er að finna netnámsskeið fyrir samstarfshópa. Miðað er að við að þeir fari saman í gegnum námskeiðið með því að fylgja vinnuferlinu sem sett hefur verið upp í nokkra þróunarhringi. Gert er ráð fyrir að hvert námssamfélag velji sér leiðtoga sem leiðir hópinn, undirbýr fundi, stjórnar þeim og skrifar fundargerðir.
Á hverjum námskeiðsvef er að finna lesefni, myndefni og viðfangsefni fyrir kennara og starfsfólk á vettvangi frítímans sem mikilvægt er að hópurinn hafi tíma til að ræða og prófa á vettvangi. Viðfangsefnin eru margvísleg og gefnar eru hugmyndir að fjölbreyttum verkefnum.
Gott er að bæði leiðtogi og allir þátttakendur námssamfélagsins skrái sig á viðkomandi námskeið. Þá fá allir jafnt aðgengi að efni námskeiðsins.
Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri býður upp á fjölbreytt námskeið fyrir kennara, ýmist einingabær eða ekki.
Opni Listaháskólinn býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða á sviði listkennslu og kennslu með aðferðum lista og sköpunar.
Á vef starfsþróunar Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er fjölbreytt úrval opinna námskeiða fyrir kennara og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi.
Endurmenntun Háskóla Íslands og Símenntun Háskólans á Akureyri brúa bilið á milli hefðbundinnar háskólamenntunar og símenntunar. Í boði eru einstök námskeið og lengri námsleiðir.
Á vef Menntastefnu Reykjavíkurborgar má nálgast mikið af efni sem tengist starfsþróun
Stýrihópur og ritstjórn Menntamiðju eru skipuð fulltrúum allra eigenda Menntamiðju. Ritstjórn tekur afstöðu til efnis sem miðlað er á vefnum.